Nú er tími fyrir fíflarótarkaffi

Nú er tíminn til að búa til sitt fíflarótarkaffi sem er dæmalaust sniðug tilbreyting frá hinu venjulega kaffi sem keypt er út í búð, gjarnan við háu verði.

Karólína M Hreiðarsdóttir hvetur fólk til að prófa fíflarótarkaffið, en hún talar um reynslu sína í þessum efnum á heilsutorg.is: \"Við mæðgur ristuðum nýtíndar fíflarætur úr garðinum um daginn, helltum uppá \"kaffi\" og útbjuggum svo fíflarótar-latte kryddað með vanillu og möndlum. Hér áður þegar kaffi var dýr munaðarvara var mjög algengt að drýgja það með kaffibæti, sem oft var gerður úr fíflarót eða chickory rót. Þetta tíðkaðist bæði hérlendis og víðar, og reyndar er kaffi með slíkum kaffibæti vinsælt í New Orleans enn þann dag í dag og þykir sælkera drykkur.

Fagurgulir fíflar vekja upp blendnar tilfinningar. Þeir eru einstaklega glaðleg sumarblóm og lífga mikið upp á umhverfið snemmsumars. En túnfífillinn á ekki í vandræðum með að dreifa sér og er því oft flokkaður sem illgresi. Hluti af vorverkum margra garðeigenda er að hreinsa grasflötina og blómabeðin af fíflum. Þannig var það líka í okkar fjölskyldu og hlutverkið féll yfirleitt í skaut yngstu kynslóðarinnar, sem uppskar hrós í samræmi við stærð rótarinnar sem náðist hverju sinni, því ekki var nóg að tína blómin. 

Okkur þótti því svolítið skondið þegar bresk vinkona kom í heimsókn og hrópaði upp yfir sig af aðdáun yfir öllum fíflunum í túninu. Hún sagðist þekkja fólk sem hefði pantað fíflafræ í gegnum internetið til að rækta túnfífla! 
Í þeim tilgangi að nýta rætur og blöð í te og seiði. 

Túnfífillinn á sér einmitt langa sögu sem lækningajurt, bæði í evrópskum alþýðulækningum, kínverskum lækningum og meðal frumbyggja Ameríku. Í bókinni Íslenskar lækningajurtir kemur fram að jurtin hafi verið talin hafa þvagdrífandi áhrif, notuð til að styrkja lifur og meltingafæri, og örva hægðir og gallmyndun. Við mæðgur erum engir sérfræðingar í virkni túnfífilsins, en margt er hægt að lesa á internetinu um túnfífilinn (dandelion).