Nokkur góð og hreinleg grillráð

Sumarið er endanlega komið, svo gott sem örugglega - og sumarið er grilltíminn. En höfum þá eitt á hreinu í orðsins fyllstu merkingu; ekki klúðramatnum á grillinu af því kappið ber forsjána ofurliði.

Það gildir sama með grilleldun og aðra eldun að skipulag er lykillinn að því að vel takist til. Um að gera að gefa sér góðan tíma, enda er það stór hluti að upplifuninni að hittast og grilla saman. Það er til dæmis gömul og gild regla að þvo sér um hendur áður og á milli þess sem hráefnið er handfjatlað.

Hjá Leiðbeiningastöð heimilanna er lögð áhersla á að hafa ólík bretti, áhöld og ílát fyrir mismunandi hráefni. Þannig er mikilvægt að hafa sér skurðarbretti fyrir hráan fisk, sér fyrir hrátt kjöt, enn eitt fyrir grænmeti og eins fyrir brauð og ávexti. Óvitlaust er að hafa þessi bretti hvert í sínum lit því það eykur líkur á að rétt bretti sé notað undir hverja tegund fyrir sig. 

Plastbretti er betra að þrífa en viðarbretti. Viðarbretti þarf að þvo á báðum hliðum til að þau verpist síður. Séu fá bretti notuð þarf að muna að þvo þau vel á milli úr heitu vatni og sápu og jafnvel sóthreinsandi efni.

Aldrei má nota sama fat undir hráan og eldaðan mat. Öruggast er að nota eldhúspappír til að þurrka upp blóðvökva og fleygja síðan strax. Aldrei SKAL nota sömu áhöld á hráa og fulleldaðan mat eða blanda saman hráu og fullelduðu hráefni. Blóðvökvi úr kjúklingakjöti er sérlega varasamur. 

Borðklúta þarf að sótthreinsa helst með Rodalon efni, hafi þeir verið notaðir til að þurrka upp blóðvökva. Ferskt grænmeti má ekki komast snertingu við hrátt hráefni til að forðast krossmengun, en hún leiðir af sér matareitrun sem getur reynst hættuleg. 

Og svo þetta: Skelltu álpappír undir kolin til að auðvelda þér þrifin á eftir. Snúðu glanshliðinni á álpappírnum að kjötinu/fiskinum þegar hann er notaður við eldamennsku á grilli. Mjög brýnt er að leyfa grillinu að hitna vel áður en eldað er. Kolagrill þarf 30 - 40 mínútur á meðan gasgrillið er sneggra að hitna eða um 10 mínútur. Passið að snúa kjötinu við aðeins einu sinni á meðan grillað er. Annars áttu á hættu að ofelda matinn, kjöt verður seigt og þurrt. Ekki nota gafla til að snúa kjötinu við, annars áttu á hættu að tapa safanum. Notaðu heldur tangir eða spaða.  

Gott er að gera það að venju að pensla ávallt grillristina með olíu áður en grillað er. Maturinn festist síður við grindina og þrifin verða auðveldari á eftir. Best er að skera mestu fituna af kjötinu, þannig minnkar þú líkurnar á að kvikni í kjötinu (eldurinn nái að læsast í fituna). Best er að láta kjöt standa við stofuhita í klukkustund áður en það er grillað. Þannig eldast það jafnar. Gott er að nota plastpoka til að krydda kjötið. Fyllið nógu stóran poka af uppáhaldskryddblöndunni, setjið kjötið í pokann og hristið duglega. Kryddið nýtist betur og kjötið kryddast jafnt á allar hliðar. Sérlega gott ef um kjúklingavængi er að ræða.
 

Og þá er loks að binda utan um sig svuntuna með allar þessar ráðleggingar í huga - og gjöra góða veislu.