Íris björk elskar hamborgara með karamellíseraðum lauk, beikoni og sveppum

Nú er sumarið komið og þá eru flestir komnir í grillstuð og eiga ánægjulegar stundir við eldamennskuna úti við.  Við hittum Írisi Björk Símonardóttur, markmann í sigurliði Vals í handknattleik, en þær unnu alla titlana þrjá í ár. Þær eru bikar,- deildar,- og Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna í handknattleik árið 2019. Íris Björk stóð sig framúrskarandi vel í marki Vals og er ein sú okkar bezta í handknattleik. Hún var jafnframt valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna tímabilið 2018/2019 hjá Val. Við fengum Írisi Björk til að segja okkur aðeins frá hvað hún er að gera þessa dagana eftir að handboltatímabilinu lauk og frá hennar uppáhalds réttum á sumargrillið.

Nú er handboltatímabilið búið í bili og sumarið komið. Hvað tekur þá við hjá þér þessa dagana?

„Ég á tvö börn, Aron Bjarka og Öddu Björgu með eiginmanni mínum. Ég er heima þessa dagana með stelpuna okkar, sem verður tveggja ára núna í ágúst, en hún mun fara inn á leikskóla næsta haust og þá fer ég aftur að vinna sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Strákurinn okkar er á fyrsta ári í skóla þannig að það hefur verið mjög þæginlegt að vera heima og geta tekið á móti honum þegar hann kemur heim úr skólanum. Svo er ég að æfa handbolta á kvöldin.

\"\"

Áttu þér þinn uppáhalds heimatilbúinn hamborgara?

„Uppáhalds heimatilbúni hamborgarinn minn, er sá sem ég fékk fyrst hjá vinahjónum okkar fyrir 6-7 árum en við höfum búið hann til reglulega síðan. Það sem gerir gæfumuninn þegar kemur að þessum hamborgara er karamellíseraður laukur með beikoni og sveppum. Fyrst búum við til karamelluna og steikjum svo laukinn og sveppina upp úr henni. Að lokum er smátt skornu beikoni bætt út í og látið malla í stutta stund. Við notum yfirleitt smash hamborgara og brioche brauð. Við erum bara með hefðbundið grænmeti- og avókadó og ananas finnst mér að verði að fylgja. Yfirleitt set ég svo chilimajónes á hamborgarann.“

Hvaða meðlæti er í mestu uppáhaldi þegar þú grillar þér hamborgara?

„Mér finnst ekki þurfa meðlæti með þessum hamborgara því hann er svo svakalega matarmikill, en ef ég er með meðlæti með hamborgara þá er það yfirleitt bara franskar og kokteilsósa.“

Hvað grillar þú helst á sumrin?

„Ég grilla reyndar aldrei sjálf, Arnar, maðurinn minn sér alveg um það. En við erum helst að grilla lax eða bleikju, nautakjöt, lambakjöt og hamborgara. Sjálfri finnst mér bleikja og naut besti grillmaturinn.“

Eru þið dugleg að borða út við á sumrin?

„Nei. við mættum vera duglegri við að borða úti við, við gerum það örsjaldan en það er alltaf ákveðinn sjarmi yfir því í góðu veðri.“

Draumamatseðillinn þegar fagna á sumrinu:

„Forréttur: Grillaður haloumi ostur,hunang,klettasalat.

Aðalréttur: Bleikja í sesam,engifer og hvítlaukslegi, sætar kartöflur, salat með papriku, rauðlauk, döðlum og fetaosti og köld hvítlaukssósa.

Eftirréttur: Fersk ber og kókosbollur grillað í bakka og ís með.“