Hreint dásamleg steik sem kitlar bragðlaukana

Ef þú ert fyrir grillaða steik ættirðu að kíkja nánar á þessa uppskrift.  Hreint dásamleg steik og Whiskey bætt sósan kitlar bragðlaukana. Við heimsóttum Önnu Björk Eðvarðsdóttur formann Hringsins og matarbloggara með meiru og fengum hana til að svipta hulunni af sinni uppáhalds sunnudagssteik. „Þessi er mitt uppáhald og Whiskey-rósapiparsósan kitlar bragðlaukana sem er gott fyrir mig þar sem ég er svolítil Whiskey kona,“ segir Anna Björk og er mjög spennt fyrir að njóta. Meðlætið gerir steikina enn meira freistandi,  ostbökuðu kartöflusneiðarnar eru snilldin ein og bráðna í munni.  Við skorum á þig að prófa, þú verður ekki fyrir vonbrigðum. Hægt er að fylgjast með matarbloggi Önnu Bjarkar á síðunni www.annabjork.is

\"\"

Sunnudags-sirloinsteikin  hennar Önnu Bjarkar

fyrir 2

2 x 200 g sirloin steikur

Ólífuolía til að pensla steikurnar með

Gróft sjávarsalt, eftir smekk

Nýmalaður svartur pipar, eftir smekk

\"\"

Whiskey - rósapiparsósa

1 msk. ólífuolía

2 skarlottulaukar, fínsaxaðir

2 hvítlauksrif, marin

½ l nautasoð

1 msk. rósapipar

½ dl rjómi                                                                                               

2 msk. Whiskey

Ostbakaðar kartöflusneiðar

2-3 stórar bökunarkartöflur

50 g smjör, brætt

30 g Gruyére ostur eða Tindur, rifinn

Gott er að taka steikina úr kæli um morguninn, taka hana úr umbúðunum og setja á á lítið fat með góðum slurk af ólífuolíu, velta henni uppúr olíunni og setja filmu yfir, til kvölds.

\"\"

Sirloin steikur

Hitið grillið snarpheitt.  Steikin er krydduð með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar.  Hún er grilluð í ca. 3-4 mínútur á hvorri hlið, fyrir medium rare, síðan sett á efri grindina og látin standa þar og snúa einu sinni í 3-4 mínútur.  Síðan látin hvílast í nokkrar mínútur áður en hún er borin á borð.  Skorin í fallegar sneiðar og borin fram með með Whiskey-rósapiparsósunni og ostakartöflusneiðunum.  Gott rauðvín er ómissandi með.

Whiskey-rósapiparsósa

Olían og smjörið er hitað í potti á meðalhita, skarlottulaukurinn og hvítlaukurinn látin malla í 4-5 mínútur eða  þar til hann er mjúkur.  Þá er soðinu bætt út í og soðið niður um helming.  Þá er rósapiparkornunum bætt út í ásamt Whiskey og smakkað til með salti.  Látin malla rólega í 3-4 mínútur. 

Ostbakaðar kartöflusneiðar

Hitið ofninn í 200°C.  Kartöflurnar eru skrældar og skornar þunnt á mandólíni eða eins þunnt og þú getur með hníf.  Sneiðarnar eru settar í stóra skál með brædda smjörinu, ostinum og smakkað til með salti. Sneiðunum er raðað 8-10 stykki saman, svo þær skarist á pappírsklædda bökunarplötu.  Endurtekið þar til sneiðarnar eu búnar.  Sneiðarnar eru bakaðar í 25-30  mínútur eða þar til þær eru gylltar og stökkar út í jöðrunum.

Ljúft að njóta á sunnudagskvöldi.