High tea að hætti elísabetar bretadrottningar – bannað að skera skonsuna

Þau Jón G. og Sjöfn Þórðardóttir fá að venju til sín góða gesti í þáttinn Fasteignir og heimili í kvöld.

\"\"

Við heimsækjum Berglindi Hreiðarsdóttur, einn þekktasta matar-og kökubloggara landsins sem heldur úti heimasíðunni Gotterí og gersemar. Einnig er hún einn af okkar færustu heimilisbökurum. Berglindi er margt til lista lagt í eldhúsinu og þegar kemur að því að halda veislur. Þegar veislu ber að garði galdrar hún fram hinar fegurstu og frumlegustu kökur sem fanga augað og bragðast guðdómlega vel. Til þess að geta notið sín í eldhúsinu og skapað þessar gersemar er mikilvægt að vera með góða vinnuaðstöðu og hafa öll tæki og tól við hendina. Við fengum að líta til hennar í eldhúsið þar sem hjarta heimilisins slær.

\"\"

Við fáum til okkar Helga S. Gunnarsson, forstjóra Regins, sem ræðir um leigu á atvinnuhúsnæði og auknar vinsældir svonefndra kjarna með íbúðum, verslunum og skrifstofum. Helgi segir að fín eftirspurn hafi verið eftir atvinnuhúsnæði undanfarna mánuði.

\"\"

Við förum í High Tea á Klambrabistró á Kjarvalsstöðum með Alberti Eiríkssyni, matarbloggara og fagurkera með meiru. Albert fer yfir þá siði og venjur sem ber að hafa í huga þegar við förum í High Tea. Albert segir að það sé bannað að skera skonsurnar í tvennt.

\"\"

Guðbergur Guðbergsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Bæ, kemur til okkar og fer yfir stöðuna á markaðinum. Guðbergur segir að salan hafi verið góð hjá sér fyrstu tvo mánuðina. Þá segir hann frá notkun skattaafsláttar í Noregi við kaup á íbúðarhúsnæði og telur að það fyrirkomulag myndi henta vel hérlendis.

Þátturinn Fasteignir og heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld kl. 20:30 á Hringbraut - og jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.