Helftin af virði nýrra íbúða fer í annað

Byggingarkostnaður nýrra húsa og íbúða er innan við helmingur af söluandvirði þeirra. Meirihlutinn af fasteignaverðinu fer í síhækkandi lóðagjöld, umsýslu, hönnun og kostnað vegna eftirlits.

Þetta kemur fram í viðtali við Gylfa Gíslason, framkvæmdastjóra Jáverks sem nú er hægt að sjá á vef stöðvarinnar, en hann gjörþekkir byggingamarkaðinn á Íslandi, en verktakafyrirtæki hans fagnar aldarfjórðungsafmæli á þessu ári.

Gylfi segir að umræða um byggingarkostnað fari iðulega á svig við staðreyndir, en þar sé gjarnan látið í það skína hversu mikilvægt sé að smíða ódýrari eignir en þekkst hefur til þessa; smíðakostnaður vegi vel að merkja ekki eins mikið í heildarvirði fasteigna og heyra megi af umræðunni; langtum mikilvægara sé að lækka allan umsýslukostnað opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, fremur en að slá af gæðakröfum við húsasmíði hér á landi. Lóðagjöld hafi til dæmis farið úr nokkrum prósentum af híbýlaverði á síðustu árum upp í það að vera á milli 20 og 25 prósent af lokavirði fasteignarinnar.

Í Afsali þessa vikuna er einnig rætt við Pál Þ. Ármann, markaðsstjóra Eignaumsjónar um það sem hafa ber í huga þegar húsfélög eru stofnuð í nýjum eignum sem eru jafnvel ennþá í lokafrágangi þegar íbúar flytja þar inn, en talið berst raunar einnig að fljótvirkni í húsasmíði og hvaða rétt kaupendur hafa þar, svo og hvaða skyldur varða verktakana í þeim efnum, svo sem þegar mygluskemmda verður vart í nýreistum húsum.

Afsal er frumsýnt öll miðvikudagskvöld klukkan 21:30..