Mundu alltaf eftir edikinu

Það þarf ekki alltaf að kaupa dýrustu hreinsiefnin úti í búð til að þrífa heimilið hátt og lágt. Það nægir oft að eiga bara edik inni í skáp og setja lítinn slurk af því út í vatn í fötu eða spreybrúsa og vaða svo í verkið. Edik er eitt mesta undraefni þegar kemur að þrifum og eyðir ekki aðeins lykt, jafnvel megnasta dauni, heldur þrífur það gólf og gler svo vel að undrum sætir. Það nægir að setja tæplega hálfan desilítra af ediki út í venjulega skúringafötu og hlutfallslegt magn ofan í brúsann og þá er heimilisfólkinu ekkert að vanbúnaði. Edikið er líka upplagt til að þrífa vaskinn í eldhúsinu eða á baðinu og sömuleiðis spegilinn og jafnvel salernisskálina en hún verður eins og ný á eftir. Heillaráð er einnig að setja slurk af þessu dásamlega efni ofan í klósettskálina fyrir svefninn og skola svo niður að morgni, en það drepur ekki aðeins lykt, heldur gerir skálina alveg skínandi fína. Og svo er hitt sem kannski fáir vita: Edik er gott og mýkjandi fyrir húðina og er tilvalið að setja hálfan bolla út í baðvatnið. Ef þetta er ekki nóg þá má benda á að það dregur úr matarlist að setja smá edik út í vatnsglasið, en þess utan slær það á gift, er gott við hálsbólgu, vinnur á flösu og má nota í stað hárnæringar, en það leiðréttir sýrustig hársins og ljær hárinu fallegan gljáa.