Heimili: neytendur segi; nei, takk

Vald neytandans er mjög mikið og kannski mun meir en fólk áttar sig á dag frá degi. Það að geta sagt ,,Nei takk!” eða tilkynna að þú ætlir að versla annars staðar, hefur nefnilega mjög mikið að segja.

Þetta kom fram í þættinum Ég bara spyr í gærkvöld sem endursýndur er á Hringbraut í dag, en þáttinn má einnig sjá hér á vef stöðvarinnar. Þar er rætt um skil á jólagjöfum, gjafabréf og fleira en Hildigunnur Hafsteinsdóttir segir mikilvægt að fólk spyrji um það við kaup á til dæmis gjafabréfum, hver gildistíminn er.

Fyrningarfrestur samkvæmt lögum eru 4 ár, en ef fyrirtæki eru eingöngu með gildistíma í til dæmis 3 mánuði eða 12 mánuði, hvetja Neytendasamtökin fólk til að segja frekar ,,Nei takk, ég fer annað.” Hildigunnur segir að með gjafabréfakaupum, sé ekki aðeins verið að greiða fyrir vöru fyrirfram, heldur liggi fyrirtæki þá á pening fyrir vöru í langan tíma, án þess að afhenda vöruna. Það sé því frekar undarlegt að vera með skamman gildistíma og synja jafnvel fólki um tiltekna vöru eða þjónustu, eftir að gildistími rennur út.

Í þeim efnum, á fólk þó að reyna að semja sagði Hildigunnur og gefur í þættinum nokkur dæmi um hvernig fólk ætti að bera sig að í samningaumleitunum. Oft færi fólk til dæmis að kvarta á Facebooksíðum fyrirtækjanna, sem væri alls ekki rétta leiðin.

Meira um þessi mál í Ég bara spyr sem er endursýndur í allan dag á Hringbraut og á laugardagskvöld kl.21.30 og á sunnudagskvöld kl.23.00.