Gleður þú móðurhjartað á mæðradaginn?

Sunnudaginn 12.maí er mæðradagurinn. Mæðradagurinn er alþjóðlegur dagur mæðra og er hugsaður til að heiðra starf þeirra. Hann var fyrst haldinn á Íslandi árið 1934 á vegum mæðrastyrksnefndar. Fyrst var mæðradagurinn fjórða sunnudag í maí en síðan einhvern sunnudag í maí. Loks var hann að endingu festur annan sunnudag í maí árið 1980 og hefur verið í hávegum hafður.

Þó mæðradagurinn sé alþjóðlegur dagur mæðra á hann sér þó ekki einn alþjóðlegan mánaðardag eða mánuð en oftast er haldið upp á hann í mars, apríl eða maí. Lang algengast er að þjóðir láti hann bera upp á annan sunnudag maímánaðar ár hvert. Eins og á Íslandi og einnig í Bandaríkjunum. 

Uppruni mæðradagsins kemur frá Litlu-Asíu fyrir þúsundum ára en þar voru dagar helgaðir mæðrum og dýrkun mæðragyðja. Þaðan barst hún til Grikklands og Rómarveldis. Með kristni þróaðist mæðradýrkunin yfir í dag til dýrðar Maríu guðsmóður og öðrum mæðrum og var sá dagur fjórði sunnudagur í lönguföstu.

Sá siður komst á að börn gæfu mæðrum sínum blóm eða gjöf þennan dag. Smátt og smátt dró þó úr því að þessi dagur væri haldinn hátíðlegur en hann viðhélst þó að einhverju leyti á Bretlandi og Írlandi og var hann svo endurvakinn á 20.öldinni og rann þá saman við mæðradaginn sem þá hafði komist á í Bandaríkjunum og hefur breiðst þaðan út.

Við Íslendingar höldum upp á mæðradaginn og hann er í hávegum hafður. Sá siður hefur haldist og þróast frá árinu 1934 að börn færi mæðrum sínum blóm eða gjafir, skrifi jafnvel falleg kort og bréf til mæðra sinna. Hefðir og siðir gefa lífinu lit og gaman er að halda í fallega siði eins og þennan og að gleðja móður sína á degi sem þessum. Fjölmargt er hægt að gera til gleðja móðurhjartað og það þarf ekki stóra gjafir til þess. Falleg skilaboð, fallegur blómvöndur, ljúffengur morgunverður, heimalagaður dögurður, út að borða, dekurstund eða upplifun eru allt gjafir sem hægt er að gefa til að gleðja móðurhjartað. Hver og einn finnur sína leið og þetta er góður dagur til að sýna móður sinni þakklæti og ást.