Getur Guðrún stólað á Bjarna?

Ráðherrablúsinn í Sjálfstæðisflokknum er orðinn hið vandræðalegasta mál.

Við myndun núverandi vinstri stjórnar tilkynnti Bjarni Benediktsson að Guðrún Hafsteinsdóttir fengi að verða ráðherra eftir 18 mánuði. Þetta sagði hann í lok nóvember 2021. Samkvæmt almennri talningu þýðir það að hún komist að í byrjun júni 2023.

Guðrún hefur reynt að líta með öðrum hætti á þessa talningu. Hún fór að tala um síðustu áramót. Varð ekki. Svo talaði hún um mars 2023. Verður varla úr þessu, enda er hún farin að tala um vormánuði.

Bjarni Benediktsson er í vandræðum með þetta mál. Honum er vorkunn:

- Jón Gunnarsson er hans helsti bandamaður um árabil. Óð fyrir hann eld og brennistein til að halda tæpum meirihluta á síðasta landsfundi.

- Jón er úr kjördæmi Bjarna. Fari hann út úr ríkisstjórn hættir hann í stjórnmálum, enda 65 ára.

Stóri vandinn er svo sá að formaður Sjálfstæðisflokksins telur sig vita að Guðrún Hafsteinsdóttir sé ekki ráðherraefni fyrir Suðurlandskjördæmi. Hún verði seint eftirmaður Ingólfs á Hellu, Þorsteins Pálssonar og Árna Matthíesen sem stóð sig vel í kjördæminu. Svo kom Ragnheiður Elín og féll.

Síðan eru liðin mörg ár.

Bjarni leysir þessi mál.

- Ólafur Arnarson