Gerir þú verðsamanburð þegar þú velur fasteignatryggingu?

Sjöfn Þórðar heldur áfram með heilræði fyrir fasteignakaupendur. Að þessu sinni er hún fer hún yfir helstu fasteignatryggingar sem brýnt er fasteignaeigendur hafi og fer yfir þær sem eru lögboðnar. Einnig minnir hún á mikilvægi þess að gera verðsamanburð á þeim sem í boði eru. 

Fasteignakaup er alla jafna stærsta fjár­fest­ing fjöl­skyld­unnar og því mik­il­vægt að tryggja húsnæðið. Komi til tjóns getur það orðið kostnaðarsamt og því mikilvægt að tryggja sig gegn tjóni. Hér gefur að líta nokkrar af helstu fasteignatryggingum en tryggingarfélögin bjóða upp á víðtæka tryggingapakka sem snúa að heimilinum.

Brunatrygging

Brunatrygging er lögboðin trygging og þurfa allir eigendur fasteigna að tryggja húseignir gegn eldsvoða hvort sem um er að ræða hús í byggingu eða fullbúið hús. Brunatrygging gildir um allar tegundir húsnæðis. Vátryggingarfjárhæð brunatryggingarinnar miðast við brunabótamat fasteignarinnar eins og það er skráð hjá fasteignaskrá.

Fasteignatrygging

Fasteignatrygging á að vernda húsaeigendur fyrir öllum algengustu tjónum sem verða á fasteignum. Fasteignatrygging er nauðsynleg öllum eigendum íbúðarhúsnæðis en hún tryggir eigendur fyrir tjónum á því sem tilheyrir fasteigninni sjálfri svo sem tjón á lögnum, gluggum, innréttingum og gólfefnum.

Innbústrygging

Bætir innbú heimilisins við meiri háttar tjón, svo sem vegna bruna, vatns, innbrots, umferðaróhapps, ráns, skemmdarverka, hruns, óveðurs, þjófnaðar úr grunnskóla og skammhlaups í rafmagnstækjum svo eitthvað sé nefnt.

Tryggingarskilmálar

Tryggingaskilmálar eru mismunandi og því afar brýnt að kynna sér þá vel. Skilmálar eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Mikilvægt er að kynna sér vel hvert bótasvið tryggingarinnar er, það er að segja hvað er bætt og hvað ekki áður en tryggingin er tekin.

Tryggingaþörf

Fjölskyldur og einstaklingar geta verið mismunandi og því getur tryggingaþörfin verið ákaflega breytileg. Mismunandi tryggingar eru í boði fyrir einstaklinga og fjölskyldur þannig að allir ættu að finna tryggingarvernd sem hentar þeirra þörfum.

Verðsamanburður  

Neytendur eru hvattir til að gera verðsamanburð með því að fá tilboð í tryggingar sínar.  Við val á tryggingarfélagi er mikilvægt að kynna sér vel skilmála tryggingafélaganna því þeir geta verið mjög mismunandi.

Neytendur geta skipt um tryggingafélög með mánaðarfyrirvara

Árið 2015 tóku gildi breytingar á lögum um vátryggingarsamninga sem kveða á um að viðskiptavinir tryggingafélaga geti sagt upp tryggingum með eins mánaðar fyrirvara vilji þeir skipta um tryggingafélag. Viðskiptavinir eru því ekki skuldbundnir viðskiptum við tryggingafélögin lengur en til eins mánaðar í senn.  

Heimildir eru fengnar af heimasíðum allra helstu tryggingafélaganna