Geðleysi sjálfstæðismanna að vinna með þeim sem brugguðu launráð gegn formanni flokksins

Í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Landsdómsmálið kemur skýrt fram hve mikið gekk á að tjaldabaki á Alþingi þegar ákvarðanir voru teknar um að draga ráðherra fyrir Landsdóm.

Hannes hefur greinilega rannsakað þennan þátt málsins í þaula og birtir niðurstöður sínar í bókinni. Frá upphafi hefur auðvitað legið fyrir hvernig einstaka þingmenn greiddu atkvæði í þinginu en í bókinni koma fram miklu meiri upplýsingar um hvernig launráð voru brugguð að tjaldabaki undir handleiðslu Steingríms J. Sigfússonar sem þóttist svo afgreiða málið „með sorg í hjarta“, en sú yfirlýsing hans er með þeim vafasamari í samanlagðri sögu Alþingis.

Þingmenn skipuðu sér í fylkingar og stóðu ekki alltaf saman innan flokka sinna. Í bókinni eru þingmenn taldir upp eftir því hvort þeir studdu málssókn eða voru henni andvígir, en kosið var um það með aðgreindum hætti hvort fjórir ráðherrar yrðu dregnir fyrir dóminn eða ekki. Geir Haarde forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Björgvin Sigurðsson viðskipta-og bankamálaráðherra og Árni Matthíesen fjármálaráðherra komu öll til greina. Eins og alþjóð veit urðu úrslit þau í þinginu að Geir var einn dreginn fyrir Landsrétt eftir að forysta vinstri stjórnarinnar hafði plottað atkvæðagreiðslur með þeim hætti að hann einn þyrfti að bera þennan kross. Þótti það einkar lágkúrulegt og bera vott um pólitíska hefndarför. Sjálfstæðismenn um land allt reiddust heiftarlega vegna þessarar framkomu og var það að vonum.

Í ljósi þessa er sérlega einkennilegt að Bjarni Benediktsson hafi haft geð í sér til að mynda ríkisstjórnir – nánast í pólitískum faðmlögum – með fólkinu sem tók þátt í því níðingsverki að draga formann Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, einan fyrir Landsdóm og dæma hann þar. Ekki má gleymast, og er rifjað skýrt upp í bók Hannesar, að meðal þeirra sem kusu með því á Alþingi að draga Geir fyrir Landsdóm voru Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og vitanlega Steingrímur J. Sigfússon, sjálf köngulóin sem spann vefina, en hann var forseti Alþingis á síðasta kjörtímabili – í boði Sjálfstæðisflokksins. Ætla má að mörgum svelgist á að rifja þetta upp við lestur bókarinnar um Landsdómsmálið.

Tólf þingmenn af þeim sem sátu á Alþingi þegar Landsdómsmálið var þar til afgreiðslu eiga enn sæti á þingi. Sjö þeirra gegna nú ráðherraembættum, fjórir til viðbótar hafa áður verið ráðherrar og sá tólfti er nú forseti Alþingis.

Sjö úr þessum hópi greiddu atkvæði gegn því að Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, yrði dreginn fyrir Landsdóm. Þau eru: Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Hinir fimm, sem greiddu atkvæði með því að draga Geir Haarde einan fyrir Landsdóm, eru: Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Oddný Harðardóttir.

Án atbeina þeirra hefði þetta pólitíska fólskuverk ekki verið unnið. Vert er að hafa það í huga næst þegar Katrín, Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson koma fram saman – skælbrosandi.

- Ólafur Arnarson.