Galdurinn á bak við góða súpu

Fiskikóngurinn Kristján Berg segir áhorfendum Hringbrautar í kvöld hver er galdurinn á bak við það að búa til góða fiskisúpu sem er bæði ódýr og kærkominn heimilismatur á svölum haustkvöldum.

Kristján er fiskisérfræðingur Heimiilsins sem er á dagskrá klukkan 20:00 í kvöld og saman ræða þeeir Sigmundur Ernir um gerð fiskisúpna að þessu sinni. Þrjár leiðir eru þar að settu marki; að gera sinn eigin grunn með því að sjóða niður fiskibein eins og Kristján lýsir vel í þættinum, kaupa soð í næstu fiskverslun, ellegar kaupa löginn eins og hann leggur sig af fisksölunum.

Hann segir súpur af þessu tagi upplagðar til að nýta til fulls matarafganga sem safnast hafa upp alla vikuna; allan fisk sem ekki klárist eigi að frysta og nota síðar í súpuna og það eigi líka við um grænmeti og kartöflur og annað það sem fellur til í matseldinni. Huggulegast sé annars að nota laxfisk og hvítfisk saman í súpunni innan um rækjur, krækling og annan skelfisk, en humarinn vilji hann hafa einan og sér í þar til gerðum humarsúpum.

En galdurinn á bak við góða súpu af þessu tagi sé einfaldur; skelið góðri og vænni smjörklípu út í súpuna meðan hún er að sjóða, jafnvel nokkur hundruð grömmum, minnkið hitann svo suðan hætti áður en fisknum er skellt út í og látinn hitna þar í fimm mínútur - og kreistið svo hálfa sítrónu yfir hvern súpudisk áður en súpunnar er neytt. 

Heimilið er á dagskrá Hringbrautar klukkan 20:00 í kvöld.