Freistingar alberts í tilefni bolludagsins

Bolludagurinn er í nánd og margir taka forskot á sæluna og eru byrjaðir að baka og raða í sig bollum. Heimatilbúnar bollur er ávallt vinsælar og margir eiga sína uppáhalds bolluuppskrift og fyllingu. Möguleikarnir á fyllingum eru óþrjótandi og hver og einn getur valið sér þá fyllingu sem bragðlaukarnir girnast.

\"\"

Albert Eiríksson sælkeri og matarbloggari með meiru er sólginn í gómsætar bollur. „Það eru nokkrir dagar á ári sem við gleymum okkur og gleymum því viljandi að æskilegt er að borða hollan mat og vel af grænmeti. Það er jú, þannig að það skiptir ekki öllu máli hvað við borðum margar bollur á Bolludaginn, það skiptir mun meira máli hvað við borðum daglega og alla hina dagana fram að næsta Bolludegi. Svo má ekki gleyma að regluleg hreyfing, í minnsta kosti þrjátíu mínútur á dag, og nægur svefn skiptir einnig miklu máli. Njótum lífsins og fáum okkur bolludagsbollur án samviskubits,“ segir Albert glaður á bragði. Við fengum Albert til að ljóstra upp leyndarmálinu að hans uppáhalds bollum. Albert notar tvær ólíkar fyllingar í vatnsdeigsbollur. „Kannski hljómar framandi að blanda saman rjóma, kókosbollum og brómberjum en trúið mér, útkoman er stórfín. Í hinum bollunum er Royal búðingi blandað saman við rjóma sem er hafður á milli ásamt hráu marsipani og bláberjasultu.“ Hægt er að fylgjast með matarblogginu hans Alberts á síðunni hans: https://www.alberteldar.com

Vatnsdeigsbollur

10 til 12 stykki

80 g smjörlíki/smjör

2 dl vatn

100 g hveiti

1/3 tsk salt

2 egg

Hitið ofninn í 180°C. Setjið smjörlíki/smjör og vatn saman í pott og hitið þangað til að smjörlíkið/smjörið er alveg bráðnað. Takið pottinn af eldavélinni og bætið við hveiti og salti með sleif. Setjið deigið í hræirvélaskál og blandið saman eggjunum, einu og einu í senn og hrærið vel. Varist að deigið verið of þunnt. Mótið bollur með tveimur matskeiðum á ofnplötu með bökunarpappír. Setjið ofnplötu með deiginu ofninn  og bakið í 20 mínútur eða þar til bollurnar eru orðnar stökkar og  gylltar á litinn. Það má alls ekki opna ofninn á meðan á bakstri stendur þá er hætt við því að bollurnar falli saman.

Kókosbollu-og mangóbollur

½ l rjómi

3 stykki kókosbollur

1 box brómber, söxuð

1 mangó í sneiðum

200 g brætt súkkulaði að eigin vali

Skerið bollurnar í tvennt. Stífþeytið rjómann og bætið kókosbollunum saman við með sleikju, þær eiga að vera svolítið grófar, og söxuðu brómberjunum.

Takið utan af mangói, skerið í þunnar sneiðar og raðið á neðri hlutann. Setjið kókosbollurjómann þar yfir. Dýfið bollulokinu í brædda súkkulaði og lokið bollunni.

Royal rjómabollur

½ l rjómi

3 msk Royal karamellubúðingur

Hrátt marsipan í þunnum sneiðum

1 krukka bláberjasulta að eigin vali

200 g brætt súkkulaði að eigin vali

Byrjið á því að blanda saman búðingnum samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hann þarf að kæla í hálftíma í ísskáp áður en hægt er að nota hann. Þegar búðingurinn er tilbúinn skerið þá vatnsdeigsbollurnar í tvennt. Stífþeytið rjómann, bætið við karamellubúðingi. Skerið marsípanið í þunnar sneiðar og raðið 2-3 ofan á neðri hlutann. Setjið  um það bil 2 tsk af bláberjasultu á hverja bollu, sprautið karamellurjómanum yfir.  Dýfið bollu lokinu í brædda súkkulaði og lokið bollunni.