Fólk leiti tilboða í húsnæðislán

Það er mjög mikilvægt í dag að fólk leiti tilboða í húsnæðislán, hjá fleirum en viðskiptabankanum sínum því bankarnir eiga mikið af peningum um þessar mundir og vilja lána.

Þetta kom fram í þættinum Afsal sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöld, en hann er nú hægt að sjá á vef stöðvarinar. Þar sagði Guðrún Antonsdóttir að samkeppni á milli banka væri orðin nokkuð sýnileg þegar kemur að húsnæðislánum. Þá sagði hún greiðslumatstímann hafa styst verulega í dag miðað við það sem áður var, en þó taka lífeyrissjóðir sér enn um þrjár vikur til að vinna greiðslumat. Þeir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn fyrir nokkru síðan og eru einnig farnir að lána töluvert.

Guðrún sagði fasteignasölu í dag mjög mikla og ljóst að þetta ár yrði stórt ár á fasteignamarkaði. Margt kæmi þar til, svo sem batnaði hagur fólks en eins hefðu margir beðið í nokkur ár eftir hrun, eftir því að geta keypt.

Í þættinum var einnig rætt við Sigrúnu Eiríksdóttur, sem nú er að selja hús sem hefur verið lengi í eigu hennar fjölskyldu. Þá var spurningum frá áhorfendum svarað um greiðslumat og kaupmála, en áhorfendur geta spurt um fasteignamál í Afsal með því að senda inn fyrirspurnir í gegnum Spyr.is.

Afsal er endursýndur á tveggja tíma fresti í allan dag og um helgina.