Um 50 þúsund landsmenn fá flensu árlega

Fyrsti gestur fræðsluþáttarins Líkamans sem hefur göngu sína á Hringbraut í gærkvöld var smitsjúkdómalæknirinn Haraldur Briem sem fékk þar það hlutverk að svara spurrningunni af hverju flensan komi alltaf til Íslands á haustin.

Hann sagði í þættinum, sem nú er hægt að sjá hér á vef stöðvarinnar, að eitt væri víst í þessum efnum; flensan kæmi alltaf árlega, en hún væri misskæð, legði að jafnaði 15 til 20% landsmanna í rúmið, en gæti enn skollið að ströndu sem harkalegur faraldur í anda spönsku veikinnar fyrir tæpri öld, í raun væri aldrei hægt að vita hversu alvarleg hún væri að hausti hverju.

Í þessum upplýsandi og áhugaverðu þáttum, sem verða eftirleiðis á dagskránni klukkan 20:30 á miðvikudagskvöldum, leita þáttastjórnendurnir Sigmundur Ernir Rúnarsson og nýr liðsmaður stöðvarinnar, Helga María Guðmundsdóttir, svara við mörgum helstu og áhugaverðustu spurningunum sem lúta að mannslíkamanum. Fyrir svörum verða læknar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og aðrir sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda, en þess má geta að Helga María er sjálf hjúkrunarfræðingur að mennt og hefur starfað á því sviði um árabil, meðal annars á bráðadeild Landspítalans, auk þess sem hún er nú í mastersnámi í fjölmiðlafræði.

Í þætti gærkvöldsins var aukinheldur leitað svara við því hvort þungaðar konur megi stunda hvaða sport sem er fram að barnsburði, en þar er Ebba Margrét Magnúsdóttir, kvensjúkdóma- og fæðingalæknir til svara - og þá útskýrði sjúkraþjálfarinn Sigrún Baldursdóttir fyrir áhorfendum hvað vefjagigt er og hvernig hún birtist fólki sem fær ýmist væg eða veruleg einkenni hennar.

Áhorfendur eru hvattir til að senda inn spurningar á netfangið [email protected] ef þeir vilja fá svör við góðum spurningum á þessu sviði.

Líkaminn er sem fyrr segir frumsýndur á dagskrá Hringbrautar klukkan 20:30 á miðvikudagskvöldum.