Fjölda barna líður illa í jólafríinu

Börn sem búa við erfiðar aðstæður heima fyrir, til dæmis vegna áfengisneyslu foreldra, líta á skólann sem sinn griðastað. Þetta kom fram í samtali við Steinunni Bergmann félagsráðgjafa hjá Barnaverndarstofu í upplýsingaþættinum Ég bara spyr á Hringbraut í nýliðinni viku.

Þáttinn má sjá hér á hringbraut.is, en hann er unninn í samstarfi við upplýsingaveitiuna spyr.is.

Steinunn sagði þar að aðventan, sem á að vera tími gleði og tilhlökkunar fyrir börn, væri oft erfiður tími fyrir börn sem þekkja jólin þannig að mikil drykkja sé á heimilinu og jafnvel þá þannig að varla næðist að halda jólin á aðfangadag. Hún sagði að stundum væri það þó svo að foreldrar næðu að halda aðfangadaginn hátíðlegan, en síðan tæki drykkjan við. Ástæðurnar gætu svo sem verið margvíslegar, stundum álag eða áhyggjur þar sem peningaleysi væri til staðar og foreldrar að reyna að redda hlutunum fram á síðustu stundu.

Áfengisneysla hefur aukist á Íslandi síðastliðin ár og þá sérstaklega hjá konum. Þannig sýndi rannsókn árið 1974 að 32% kvenna á Íslandi, drykki ekki áfengi. Eftir aldamótin síðustu, hafði þetta hlutfall lækkað niður í 6%. Aðspurð sagði Steinunn ástæðurnar vera margvíslegar en helst mætti lýsa því sem svo að konur væru að hasla sér völl alls staðar. Það væri þá ekki bara á vinnumarkaði heldur einnig í breyttum neysluvenjum.

Málefni þáttarins byggði á spurningu frá lesanda Spyr.is á dögunum, þar sem spurt var hvort fullorðið fólk mætti vera ölvað innan um börn. Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Spyr.is og umsjónarmaður þáttanna Ég baraspyr, sagði að svar Steinunnar við þeirri spurningu hefði verið mikið lesið. Af því tilefni hefði spurningin verið valin sem málefni þáttarins en þar var þá meðal annars spurt: Hvar eru mörkin á milli þess að áfengisneysla fullorðinna sé í lagi eða ekki? Steinunn sagði að þessi mörk væru oft óljós, hvenær er maður ölvaður, hífur eða kenndur? Aðalmálið væri að börn upplifðu oft ótta og óöryggi innan um ölvað fólk. Það væri vegna þess að þau skilja oft ekki, hvers vegna fullorðna fólkið breytist í hegðan. Þá sýna rannsóknir að áfengisneysla fullorðinna getur haft neikvæð áhrif á allt að 22% barna. Því væri mikilvægt að allir væru vakandi yfir aðstæðum, hvort sem væri vegna sinna barna eða annarra.

Þættina Ég bara spyr er hægt að skoða hér á vef Hringbrautar, en í þeim er þeirri spurningu einnig svarað, hvort bætur frá Tryggingastofnun skerðist alltaf við töku lífeyris.