Fíflinu att á foraðið

Þegar Framsóknarmönnum líður illa vegna málefna sem eru að sliga ríkisstjórnina og vegna neikvæðrar umræðu um forystu flokksins, þá er gjarnan gripið til þess ráðs að reyna breyta umræðunni. Þá þarf að etja einhverjum á foraðið. 

Vigdís Hauksdóttir er þá gjarnan kölluð til verka. Hún fór í viðtal við Bítið á Bylgjunni og freistaði þess að þyrla upp alls konar ryki til að beina athyglinni frá því sem Bylgjan vildi auljóslega tala um við hana, þ.e. inngrip ríkisstjórnarinnar í kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og BHM. Ríkisstjórnin hrifsar stjórnarskrárvarinn samningsrétt af þessum stéttum og er að fá alla þjóðina upp á móti sér vegna þess.

Sjálfumgleðin vegna væntanlegrar fjáröflunar frá slitabúum föllnu bankanna einkenndi málflutning ríkisstjórnarinnar framan af síðustu viku. Reyna átti að bæta upp fyrir öllu klúðursmál það sem af er kjörtímabili. Gleðin stóð þó ekki nema í 4 daga en þá gengu ríkisstjórnarflokkarnir í lagasetningu gegn opinberum starfsmönnum, sviptu þá lögmætum samningsrétti. Þar með snérist umræðan öll gegn ríkisstjórninni að nýju. Ekki tókst að baða sig í dýrðarljóma nema 4 daga. Þá var partíið búið. Það var reyndar þá þegar farið að bera á því að æ fleiri voru búnir að átta sig á þeirri staðreynd að ekki var verið að afnema gjaldeyrishöft, heldur herða þau.

Samúð þjóðarinnar er með hjúkrunarfræðingum og öðrum opinberum starfsmönnum. Hjúkrunarfræðingar bentu á að ekki hafi verið sett lög á lækna um áramótin þó þeir hafi verið langtum lengur í verkfalli en hjúkrunarfræðingar voru núna. Ekki var látið jafnt yfir þessar tvær heilbrigðisstéttir ganga. Hjúkrun er kvennastétt, sú mest afgerandi á landinu. Þótti mörgum þetta heldur nöturleg afmælisgjöf nokkrum dögum fyrir 19. júní einmitt á sama árinu og 100 ár eru liðin frá því konur öðluðust kosningarétt.

Seðlabankastjóri og fjármálaráðherra hafa margítrekað að takist að ná fyrirhuguðum fjármunum frá föllnu bönkunum inn í ríkissjóð, þá verði að tryggja að þeim verði einungis varið til skuldalækkunar en alls ekki í eyðslu eða rekstur. Þeir segja að fari þessir fjármunir út í samfélagið, þá verði hér þensla og óðaverðbólga.

Margir vilja ekki trúa því að Framsókn ætli að fara að slíkum ráðum. Þeir vilja peninga í eyðslu, atkvæðakaup fyrir næstu kosningar.

Í viðtalinu við Bylgjuna kom Vigdís upp um Framsóknarmenn þegar hún byrjaði að lofa þvert á viðvaranir seðlabankastjóra og fjármálaráðherra. Talaði um “forgangsmál” eins og heilbrigðiskerfið, samgöngumál, viðhald vegakerfisins og “flugvelli úti á landi.”  Framsóknarmenn ætla ekki að borga niður skuldir og tryggja stöðugt verðlag. Þeir ætla að “forgangsraða” peningum til margháttaðra verkefna, einkum úti á landi. Þeir ætla að reyna að kaupa sér fylgi enn á ný fyrir fé úr opinberum sjóðum.

Svo klikkti hún út með því að tala um Sigmund Davíð sem “verðmætasta” stjórnmálamann landsins frá lýðveldisstofnun!

Ruglaðist Vigdís Hauksdóttir ekki á orðum og hugtökum eins og svo oft áður? Manneskjan sem talaði um að stinga hausnum í steininn. Hún hefur væntanlega ætlað að segja að Sigmundur Davíð væri DÝRASTI stjórnmálamaður lýðveldistímans en ekki sá verðmætasti.