Ekkill með 20 milljóna námslán

Fjöldi dæma er um að fólk erfi ábyrgðir ættingja sinna hér á landi og hefur það oft og tíðum komið sér illa fyrir aldrað fólk sem situr uppi með íþyngjandi skuldir semþað stofnaði ekki sjálft til.

Í þættinum Ég bara spyr, sem Hringbraut sýndi í gærkveldi, voru nokkrar fyrirspurnir frá lesendum Spyr.is teknar fyrir og bornar undir Gísla Tryggvason lögmann.

Meðal fyrirspurna var erindi frá eldri manni, sem velti því fyrir sér hvort 20 milljóna króna námslánaábyrgðir myndu erfast til barna hans, þegar hann félli frá. Sjálfur vissi hann ekki af þessum ábyrgðum fyrr en mörgum árum eftir að konan hans lést. Hún lést árið 2003 en það var ekki fyrr en eftir hrun, sem ekklinum varð ljóst að ábyrgðir af námslánum sem hún hafði skrifað uppá, hefðu yfirfærst á hann.

Gísli sagði að lánaábyrgðir væru oft erfiðar í dánarbúum því þær eru ekki virkar, á meðan lán eru í skilum. Þegar lánin fara hins vegar í vanskil og eru gjaldfelld, koma þau fram. Að mati Gísla, sagði hann of algengt að upplýsingar frá LÍN og upplýsingar frá aðilum eins og Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna meðlaga, væru ekki nægilega sýnilegar þegar fólk félli frá.

Í þessu tilfelli væri mögulega hægt að leita leiða til að forða ekklinum frá því að þurfa að greiða þessar 20 milljónir króna, en fyrst og fremst þyrfti viðkomandi að leita til fagaðila. Gísli sagði samt að almennt erfðust skuldir ekki, aðeins eignir. Þátturinn Ég bara spyr verður endursýndur á föstudagskvöld og sunnudagskvöld.