Einkaskólarnir skila hæstum einkunnum

Niðurstöður samræmdra prófa þetta skólaárið liggja fyrir og kemur í ljós að einkareknu skólarni koma hvað best út í skýrslu Námsmatsstofnunar.
Nemendur Ísaksskóla er með hæstu meðaleinkunn í íslensku yfir allt landið, sjötta árið í röð. Í stærðfræði eru þeir líka með hæstu meðaleinkunn yfir landið allt. Þetta kom í þættinum Hringtorgi á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld.

 

Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Ísaksskóla var gestur Huldu Bjarnadóttur í þættinum, en hún segir umræðuna um einkareknu skólana hafa  batnað til muna eftir að hún kom til starfa fyrir 6 árum. Hún er einnig formaður Samtaka sjálfstæðra skóla og telur hún hið opinbera orðið miklu jákvæðara fyrir þessu rekstarfyrirkomulagi. Spurð að ástæðu þessa góða gengis hjá skóla sem verður 90 ára á næsta ári segir hún að þar komið margt til, en hún tiltók sérstaklega að kennt sé í minni einingum í skólanum en þekkist víðast hvar; kennarar geti þar af leiðandi veitt meira aðhald og stuðning, og gripið fyrr inn í ef þess þarf.  

 

Áslaug Hulda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var einnig gestur Huldu í þættinum. Hún segir rekstur einkarekinna skóla alla jafna þungan sem skýri af hverju þeir eru ekki fleiri. Þeir voru um 1% af grunnskólum landsins þegar Hjallastefnan fór upp á grunnskólastigið, en eru núna í 2%. Hún segir einnig að almennt sé umhverfið og umræðan í kringum einkarekstur í leikskólum auðveldara en í grunnskólum. Í þjónustusamningum um leikskóla sé unnið með ákveðin einingarverð sem séu sambærileg og einingarverð fyrir opinberu skólana. Í grunnskólunum segi löggjafinn hins vegar að þegar sveitarfélag hafi samþykkt grunnskóla greiði þap að lágmarki 75% af landsmeðaltali, en 25% megi svo rukka  með skólagjöldum. "Ég held að enginn sjálfstætt starfandi skóli nýti sér það enda þyrftu skólagjöldin að vera hátt í 40.000 á mánuði til að dekka þessi 25%" segir Áslaug Hulda. Aðeins í einu sveitarfélagi, Garðabæ, sé raunverulegt val um grunnskóla að þessu leyti, sem þýði að sveitarfélagið greiðir 100% framlag til sjálfsætt starfandi skóla og í staðinn sé ekki heimilt að rukka skólagjöld.