Bleyttu bévítans pappírinn í drasl

Það er óheyrilegt magn sem fellur til af pappír á hverju heimili – og í reynd fremur raunalegt að horfa á eftir öllum þessum verðmætum fara í ruslið. En þá er auðvitað að endurnýta og flokka, setja pappírinn á sinn eina og góða stað í þá ruslatunnu sem endurvinnur heila klabbið. En hver hefur ekki lent í því að koma að yfirfullri pappírstunnu? Það er á stundum eins og þær séu aldrei tæmdar.


Fyrsta ráð er auðvitað að skvera sér upp í tunnuna svo enginn sjái til og þjappa draslinu svo vel að rúmmálið minnki um helming, en stundum dugar það raunar skammt. Þá er að huga að næsta ráði sem einmitt er líka rúmmálsminnkandi; að bleyta pappírinn í drasl! Tökum sem dæmi kassa utan af pizzu. Fólkið hefur kannski verið að gera vel við sig og pantað eina – og eftir stendur þessi líka kassi á eldhúsbekknum. Ráðið er að setja hann undir kranann, bleyta hann í gegn og vinda hann svo í höndunum þar til eftir stendur svolítill pappírsbolti, tilvalinn til að enda sem lítil arða í tunnunni okkar góðu.