300 manns á fasteignaráðstefnu á morgun

Um 300 gestir eru skráðir á fasteignaráðstefnu í Hörpu á morgun, fimmtudag, en þetta er í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin á Íslandi.

Að sögn ráðstefnuhaldara er enn hægt að bóka sig á ráðstefnuna en þar koma saman helstu hagsmunaaðilar á fasteigna- og húsnæðismarkaðinum. Meðal þeirra sem halda erindi eru Eygló Harðardóttir ráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Gunnhildur Gunnarsdóttir frá Íbúðalánasjóði, Seðlabanki Íslands, Arion banki, Samtök atvinnulífsins, Ármann Kr Ólafsson frá Kópavogsbæ og fleiri. Þá verða erindi um hóteluppbyggingar og áhrif ferðaþjónustunnar á eftirspurn og framboð eftir íbúðum. Erlendur gestur er Hedvig Vestergaard, prófessor við Aalborg háskólan, en hann mun halda erindi undir yfirskriftinni \"Ways of residing - factors influencing it and prospects for the future.\" Fundarstjóri verður Svanbjörn Thoroddsen, hjá KPMG.


Í þættinum Afsal á Hringbraut, var rætt við nokkra af frummælendum ráðstefnunnar fyrr í þessum mánuði. Þar kom meðal annars fram að gera megi ráð fyrir að íbúðarhúsnæði framtíðarinnar muni að nokkru leyti breytast, enda þarfir og lífstíll fólks ólíkt því sem áður var.

Nú er til dæmis algengara að börn fráskildra foreldra búi hjá báðum foreldrum, sem þýðir að á sumum heimilum þarf að gera ráð fyrir mismiklum fjölda íbúa eftir tímabilum.

Þá var rætt við Gunnhildi Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Íbúðalánasjóðs, sem sagði að starf sjóðsins fælist einna helst í því í dag að ráðleggja framtíðarkaupendum um hvað væri hægt að gera til að festa kaup á eign. Oft væri mikilvægt að koma upplýsingum til fólks, til að mynda um hvernig það gæti fengið greiðslumötum breytt ef staðlað greiðslumat þykir ekki endurspegla hinn raunverulega rekstrarkostnað heimilsins.

Að sögn Ívars Ragnarssonar, eins af ráðstefnuhöldurum, binda menn vonir við að ráðstefnan verði að árlegum vettvangi fyrir helstu hagsmunaaðila \"...til að taka stöðuna, horfa til framtíðar og mynda tengsl.” Þá segir Ívar að menn séu bjartsýnir á að vettvangur sem þessi, myndi auka við gagnsæi upplýsinga á fasteignamarkaðinum. Að sögn Ívars hefur undirbúningur gengið mjög vel en í dag undirbúa fyrirtæki kynningarbása sem verða á staðnum. Hringbraut verður meðal þeirra.

Dagskrá ráðstefnunnar má sjá í heild sinni HÉR en húsið mun opna klukkan 8 og ljúka með kokkteil og léttum veitingum síðdegis.