Þvílík upplifun á tískusýningu geysis sem frumsýnd var með pomp og prakt - stílhrein og minimalísk innblásin af verkum ásmundar sveinssonar

Splunkuný og stórglæsileg fatalína frá Geysi var frumsýnd á dögunum með pomp og prakt í Listasafni Reykjavíkur. Þvílík flugeldasýning að njóta og upplifunin stórkostleg. Farið var aðeins til tíunda áratugarins þar sem stílhreinar línur heilluðu. Línan heitir Fýkur yfir hæðir og er innblásin af verkum Ásmundar Sveinssonar, stílhrein og minimalísk og fangar augað.

Hönnuður nýju línunnar er Erna Einarsdóttir yfirhönnuður og listrænn stjórnandi Geysis.  Vinnan við línunna hófst veturinn 2018 þegar Erna var í fæðingarorlofi.  „Þann vetur varð á vegi mínum stytta nokkur af móður faðma barn sitt, sem snerti streng í hjarta mínu. Þar var á ferðinni einn af fjölmörgum málmskúlptúrum Ásmundar Sveinssonar en verk hans má finna víða í höfuðborginni.  Má því segja að rölt mitt um borgina í leit að skúlptúrum Ásmundar hafi haft áhrif á línuna, enda er Reykjavík óþrjótandi innblástur fyrir mig,“ segir Erna um innblástur línunnar.

Eins og verið hefur eru sterkir litir og prjónaðar flíkur hluti af línunni en ný form litu dagsins ljós í þessari línu og vöktu mikla eftirtekt viðstaddra. Eins og Erna lýsir svo vel þá heldur Geysiskonan áfram að þróast en nú bætir hún við gallabuxum og ullarkápum við í fataskápinn sinn. Einnig er maðurinn hennar kominn á svið, og hefur hann verið í mótun í hugum hönnuðar Geysis síðastliðið ár. 

Tískusýningin var öll hin glæsilegasta og útkomunni var fagnað með standandi lófataki og fagnaðarhrópum frumsýningargesta og hlaut einróma lof gestanna.  Nýja línan er byrjuð að koma í verslanir Geysis og rýkur út eins og vindurinn.

Myndir aðsendar frá Geysi

\"\"

 

\"\"

\"\"