Margrét og Aðalbjörn stjórna skólaþætti

Nýr þáttur á Hringbraut um skólamál - samstarf Hringbrautar og KÍ

Margrét og Aðalbjörn stjórna skólaþætti

Margrét, Aðalbjörn og Sigmundur í myndveri
Margrét, Aðalbjörn og Sigmundur í myndveri

Kennarasamband Íslands og sjónvarpsstöðin Hringbraut undirrituðu í dag samstarfssamning um framleiðslu á átta þátta sjónvarpsröð um skóla- og menntamál. Þættirnir, sem hlotið hafa nafnið Skólinn okkar verða í umsjón Margrétar Marteinsdóttur fjölmiðlakonu og Aðalbjörns Sigurðssonar, útgáfu- og kynningarstjóri KÍ.

Vinna við þættina hefst í byrjun febrúar og gert er ráð fyrir að fyrsti þáttur verði sýndur um hálfum mánuði síðar. Í þáttunum verður lögð áhersla á að opna skóla landsins fyrir almenningi en einnig að fjalla á skemmtilegan og faglegan hátt um það mikla og öfluga starf sem fram fer í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum landsins. Rætt verður við nemendur, kennara og sérfræðinga um stöðu skólanna og starf kennarans, svo fátt eitt sé nefnd.

„Umræða í fjölmiðlum um skóla- og menntamál, sem og málefni kennara, tengist allt of oft kjaramálum og ýmis konar vandamálum sem koma upp í skólum. Það öfluga starf sem fer fram í þeim fær hins vegar takmarkaða athygli, sem er undarlegt í ljósi þess hversu miklum tíma börnin okkar og unglingar verja í skólanum. Þetta er málaflokkur sem kemur öllum við og við viljum auka umræðuna og opna augu almennings fyrir því gróskumikla starfi sem unnið er á hverjum degi í skólum landsins,“ segir Aðalbjörn Sigurðsson um ástæðu þess að Kennarasambandið efnir til samstarfs við Hringbraut.

„Við viljum taka þátt í uppbyggilegri umræðu um þessa einu mikilvægustu stoð samfélagsins sem skiptir sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Fjölþætt skólastarf í landinu hefur einfaldlega ekki fengið þá athygli sem það á skilið. Og það er harla undarlegt þar eð snertifletir þess við samfélagið eru óteljandi. Þessu viljum við reyna að breyta með metnaðarfullri dagskrárgerð í umsjá þaulreynds fagfólks. Hringbraut hefur lagt áherslu á ábyrga umræðu þar sem mannvirðing, umburðarlyndi og víðsýni hafa verið leiðarljósin og því er samstarf af þessu tagi í anda okkar stefnu,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri Hringbrautar.

Nýjast