Byggingaverktakar halda uppi verði

Fasteignamarkaðurinn er að ná jafnvægi eftir að verðhækkanir á íbúðahúsnæði fóru úr hófi fram á seinni hluta síðasta vetrar. Þetta er mat Ingólfs Geirs Gissurarsonar, eins reyndasta fasteignasala landsmanna, en hann er gestur Heimilisins á Hringbraut í kvöld.

Hann segir ástæðuna meðal annars vera þá að aukinn fjöldi nýrra eigna sé nú að koma út á markaðinn, en vandinn þar sé þó sá að byggingarverktakar verðleggi nýjar eignir ennþá of hátt; vilji í rauninni fá jafn mikið fyrir þær og þegar verðlag var hvað hæst. Mikilvægt sé að verktakar axli samfélagslega ábyrgð um þessar mundir - og komi eignunum jafnt og þétt út til einstaklinga í stað þess að selja þær allar í einu lagi til leigufélaga, eins og margir þeirra geri enn, en fyrir vikið safnast fjármagnskostnaður á allar óseldar eignir sem standi tómar þar til allt heila fjölbýlishúsið er fullfrágengið.

Ingólfur Geir segir að verðlag eigna í miðborginni sé búið að ná hámarki og jafnvel beri þar á verðlækkunum; íbúar í söluhugleiðingum vilji enn fá hæsta verðið fyrir 101-eignirnar sínar, en kaupendur séu aftur á móti ekki jafn æstir og áður að festa sér þær, einkum ef verðið sé enn í hæstu hæðum. Þá ráði hér líka miklu að margar íbúðir sem áður voru í útleigu til ferðamanna séu komnar í sölu vegna breytinga á reglum um leiguhúsnæði og atvinnustarfsemi því tengdu - og það hafi áhrif til verðlækkunar.

Heimilið byrjar klukkan 20:00 í kvöld.