Unglingar í áfalli í hagaskóla: nemandi fluttur á bráðamóttöku – „ætti að vera öllum ljóst að þetta á ekkert skylt við leik“

„Í dag gerðist það í skólanum að nemandi missti meðvitund þegar samnemandi hans tók hann kverkataki. Í framhaldi af því féll hann í gólfið.“

Þetta segir Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri í skeyti sem hún sendir á foreldra barna í Hagaskóla en skólinn er ætlaður nemendum á unglingastigi. Flytja þurfti nemandann með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Lögregla kom einnig á svæðið. Unglingar sem urðu vitni að þessu óhugnanlega atviki var mjög brugðið. Ingibjörg segir í bréfi til nemenda:

„Það virðist vera þannig að einhverjir nemendur líti á það sem leik að taka aðra kverkataki og bíða eftir því að viðkomandi gefi merki um hvenær sleppa eigi takinu. Það ætti að vera öllum ljóst að þetta á ekkert skylt við leik og getur verið stórhættulegt.“

Þá segir Ingibjörg að eftir helgi muni stjórnendur og kennarar ræða við nemendur um það sem gerðist. Vetrarleyfi hefst í Hagaskóla á morgun. Ingibjörg segir einnig:

„Líðan hans er eftir atvikum. Nokkur hópur nemenda varð vitni að atvikinu og var mörgum brugðið. Ég hvet foreldra til að ræða við börnin sín í vetrarleyfinu um alvarleika málsins.“