Samfylking og Viðreisn vilja mynda stjórn með Flokki fólksins – eða Miðflokki, takist ekki að semja við Ingu Sæland

Ljóst er að Samfylking og Viðreisn vilja vinna saman í nýrri ríkisstjórn þar sem staðið yrði við loforð um breytingar, gott samkomulag og heilindi eins og lofað var í kosningabaráttunni.

Fyrst munu formenn flokkanna reyna að ná samkomulagi við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, sem er einnig sigurvegari í þessum kosningum. Stjórnarandstöðuflokkarnir, Samfylking, Viðreisn, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, unnu allir stóra sigra á meðan stjórnarflokkarnir guldu afhroð, enginn þó sem en Vinstri græn sem hverfa af þingi og trúlega alveg úr íslenskum stjórnmálum eftir aldarfjórðungs sögu.

Meðal stórra tíðinda í þessum kosningum eru að þrír flokkar, VG, Sósíalistar og Píratar, ná ekki fulltrúum á þing. Forystumenn þeirra eru byrjaðir að tala um að lækka þurfi þröskuld fylgis til að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta. Þeim reglum verður trúlega alls ekki breytt því engin rök eru fyrir því að dvergþjóð eins og Ísland þurfi aukinn fjölda smáflokka á Alþingi.

Útreið ríkisstjórnarflokkanna er trúlega Íslandsmet. Fráfarandi stjórnarflokkar fá samtals einungis 29,5 prósent atkvæða í kosningunum. Þeim er einfaldlega hafnað. Kjósendur töluðu alveg skýrt um að þeir vilja ekki að fráfarandi ríkisstjórnarflokkar komi nærri landsstjórninni næstu árin. Það væri því hreinn ruddaskapur við kjósendur ef einhverjir af sigurvegurum kosninganna, sem allir voru í stjórnarandstöðu, kæmu að því að mynda nú ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eða Framsókn. Það færi gegn góðum og gildum lýðræðisháttum.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn reyni nú að brosa í gegnum tárin og benda á að hann hafi fengið nokkru meira fylgi en sumar skoðanakannanir spáðu er það innantómt hjal í ljósi þess að rétt og eðlilegt er að bera saman úrslit kosninga við úrslit síðustu kosninga á undan. Skoðanakannanir eru einungis áhugaverðir samkvæmisleikir sem hafa enga þýðingu að kosningum loknum. Þá gildir samanburður úrslita við úrslit síðustu kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn fór í fyrsta skipti í sögunni niður fyrir 20 prósenta fylgi og mældist með 19,4 prósent sem er 5 prósentustigum lakara en í kosningunum 2021 sem þá voru næstverstu úrslit flokksins frá upphafi. Þróun kjörfylgis Sjálfstæðisflokksins síðasta aldarfjórðung er sem hér segir:

  • Árið 1999 var fylgið 40,7 prósent. Þá var að ljúka stjórnmálaferli Þorsteins Pálssonar og Friðriks Sophussonar fyrir flokkinn. Davíð Oddsson var formaður.
  • Árið 2003 var fylgið 33,7 prósent. Síðustu kosningar sem Davíð Oddsson var formaður.
  • Árið 2007 var fylgið 36,6 prósent. Þá var Geir H. Haarde formaður.
  • Árið 2009 var fylgið 23,7 prósent. Þá var Bjarni Benediktsson tekinn við formennsku Sjálfstæðisflokksins. Þetta voru fyrstu kosningar eftir hrunið og lægsta fylgi sem flokkurinn hafði þá fengið.
  • Árið 2013 var fylgið 26,7 prósent. Þá hafði vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. ráðið í fjögur ár við gífurlegar óvinsældir. Fylgið jókst samt ekki meira en þetta.
  • Árið 2016 var fylgið 29,0 prósent. Þá var Bjarni Benediktsson formaður.
  • Árið 2017 var fylgið 25,2 prósent. Þá var Bjarni Benediktsson formaður og hafði sagt af sér sem forsætisráðherra eftir 10 mánaða ríkisstjórn.
  • Árið 2021 var fylgið 24,4 prósent. Þá var Bjarni Benediktsson formaður og búinn að halda flokknum í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur í 4 ár
  • Árið 2024 er fylgið 19,4 prósent. Enn er Bjarni Benediktsson formaður – hann sleit stjórnarsamstarfinu eftir að hafa gegnt stöðu forsætisráðherra frá maí 2024, rétt um sex mánuði.

Þessar fylgistölur sýna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur misst meira en helming fylgis síns á aldarfjórðungi og heil 17 prósentustig á 15 árum frá því að Bjarni Benediktsson tók við formennsku í flokknum árið 2009. Á þessum tíma hefur flokkurinn verið við völd í ríkisstjórn allan tímann að undanskildum tíma vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2009 til 2013. Það er því ekki að undra þótt kjósendur sendi nú skýr skilaboð um að þjóðin þurfi hvíld frá Sjálfstæðisflokknum. Væntanlega þarf flokkurinn sjálfur næði til að endurskipuleggja sig. Hann þarf að ná jarðtengingu á ný. 

Allt of lengi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið sem hundur í bandi eigenda sinna. Meðferðin af hálfu eigendanna er, það sem skilgreint er í dýraverndarlögum, ill meðferð. Samt er hollusta hundsins og hlýðni við eigandann alger. Það er hundseðlið. Kúgaður rakkinn lætur eigandann siga sér á allt og alla sem ógna ríkulegum sérhagsmunum hans. Segja má að í kosningunum á laugardag hafi þjóðin loks ákveðið að hringja í hundaeftirlitsmanninn, meira en 80 prósent þjóðarinnar sá loks ljósið.

Útkoma Framsóknarflokksins í þessum kosningum er sú lakasta í rúmlega 100 ára sögu flokksins. Flokkurinn er rústir einar. Þrír af fjórum ráðherrum flokksins náðu ekki endurkjöri og formaðurinn skreið inn sem jöfnunarþingmaður í síðustu tölum sem birtar voru. Flokksins bíður alger uppstokkun á tíma þegar allir yngir forystumenn flokksins hverfa af Alþingi og alger óvissa ríkir um framhaldið. Kjörfylgið nam núna einungis 7,8 prósentum. Fimm þingmenn flokksins koma allir af landsbyggðinni, enginn þingmaður Framsóknar er úr Reykjavík eða Kraganum þar sem 70 prósent þjóðarinnar býr.

Örlög Vinstri grænna eru mögnuð og sýna að þeim flokki er refsað sem svíkur flest loforð sín og grundvallarstefnumál. Ekki verður heldur litið fram hjá því að flokkurinn var eftir allt saman lítið annað en Katrín Jakobsdóttir sem hafði lag á að halda ólíkum hópum saman og sýndi vissa stjórnkænsku. Þegar hún yfirgaf félaga sína til að freista þess að ná kjöri sem forseti Íslands hrundi flokkurinn – og reyndar einnig ríkisstjórnin. Þeir sem eftir stóðu höfðu enga burði til að taka við kyndlinum af Katrínu.

Vonandi gengur sigurvegurum kosninganna vel að mynda nýja og samheldna ríkisstjórn. Óskandi er að stjórnarmyndun taki ekki of langan tíma þannig að nýtt fólk komist sem fyrst til starfa og geti látið hendur standa fram úr ermum við að hrinda í framkvæmd fjölda mála sem fráfarandi ríkisstjórn vanrækti vegna innri ágreinings og ósættis.

Mikilvægt er að ný ríkisstjórn láti fara fram úttekt á stöðu þjóðarbúsins við stjórnarskipti. Ráða þarf hæfa utanaðkomandi ráðgjafa til að framkvæma slíka úttekt. Þá þarf að sækja til útlanda til þess að starfið verði hafið yfir allan vafa. Skýr svör þurfa að fást við því hvers vegna stýrivextir á Íslandi eru þrefaldir á við nágrannalöndin, rétt eins og verðbólgan. Það þarf skýringar á samfelldum halla á fjárlögum í sjö ár, það þarf skýringar á útþenslu ríkisbáknsins og einnig þarf að fá upp á borðið óumdeildar skýringar á því hvers vegna orkuframleiðsla í landinu hefur ekki verið með eðlilegum hætti og hvers vegna þjóðin hefur misst tökin á málefnum flóttamanna. Af nægu er að taka. Svör þurfa að vera afdráttarlaus og óháð á þessum mikilvægu tímamótum í sögu þjóðarinnar.

- Ólafur Arnarson