Landeigendur í drangavík kæra deiliskipulag og framkvæmdaleyfi vegna hvalárvirkjunar

Eigendur meirihluta jarðarinnar Drangavíkur á Ströndum hafa kært deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Eigendurnir fara þess á leit að nefndin beiti heimild sinni til að stöðva yfirvofandi framkvæmdir á meðan fjallað er um málið.

Fimmtán einstaklingar og eitt dánarbú eru þinglýstir eigendur Drangavíkur. Jörðin er óskipt. Tíu einstaklingar, eigendur 70 prósent jarðarinnar, standa að kærunni til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í tilkynningu frá landeigendunum tíu segir að aðilda þeirra að kærunni til ÚUA byggi á eignarrétti að jörðinni Drangavík og vatnsréttindum sem henni fylgja. Landeigendur segjast enga heimild hafa veitt fyrir virkjanaframkvæmdum á jörðinni og að kröfurnar um ógildingu ákvarðana byggi á umverfisvernd.

Telja Hvalárvirkjun byggja á röngum landamerkjum

Landeigendur segja það ljóst að þinglýst landamerkjaskrá Drangavíkur og aðliggjandi jarða frá 1890 sýni að Vesturverk og Árneshreppur hafi notað röng landamerki við skipulagningu Hvalárvirkjunar. Landamerkjabréfið frá 1890 staðfesti að vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns sé alfarið innan jarðarinnar Drangavíkur. Engar breytingar hafi verið gerðar á þessum landamerkjum eftir 1890.

\"\"

Nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarár er sögð vera ein meginforsenda Hvalárvirkjunar. „Við meirihlutaeigendur Drangavíkur erum á móti því að Hvalárvirkjun verði reist og höfum ekki í huga að semja við Vesturverk um nýtingu vatnsréttinda okkar í þágu virkjunar. Við viljum að víðerni Ófeigsfjarðarheiðar, vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum. Hvalárvirkjun mun ekkert gera fyrir mannlíf á Ströndum, heldur þvert á móti eyðileggja þá möguleika sem felast í náttúruvænni uppbyggingu atvinnulífs. Hvalárvirkjun er ekki nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og bygging hennar mun að auki leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa af háspennulínum,“ segir í tilkynningunni.

Ekkert samráð við eigendur Drangavíkur

\"\"

Landeigendur segja það óskandi að þeir sem stýrðu áformum um Hvalárvirkjun hefðu verið með rétt landamerki á hreinu frá upphafi. „Líklega hefðu virkjanaáform þá aldrei komist á skrið og forða hefði mátt togstreitu milli íbúa í Árneshreppi. Engir aðrir en eigendur Vesturverks bera ábyrgð á því að kanna hverjir eru réttir eigendur þeirra auðlinda sem þeir vilja fénýta,“ segir í tilkynningu landeigenda.

Þeir segja einnig að ekkert samráð hafi verið við eigendur Drangavíkur við undirbúning Hvalárvirkjunar eða skipulagsvinnu.

Vilja reisa stíflu og gera miðlunarlón

Samkvæmt áformum Hvalárvirkjunar hefur staðið  til að reisa stíflu og gera miðlunarlón þar sem er Eyvindarfjarðarvatn í landi Drangavíkur, og veita vatninu suður í Hvalárlón. Landeigendurnir segja að víðerni innan landamerkja Drangavíkur munu skerðast við vegaframkvæmdir sem Árneshreppur hefur nú veitt leyfi fyrir og er fyrsti áfangi virkjanaframkvæmda.

Árneshreppur samþykkti framkvæmdaleyfið fyrir aðeins fáeinum dögum eftir langan aðdraganda og varð kæruréttur ekki virkur fyrr en við samþykktina.

Ekki leitað eftir samþykki

„Með framkvæmdinni í heild yrði […] raskað enn frekar og á margvíslegan hátt svæðum og fyrirbærum sem lúta eignarrétti okkar. Til dæmis má nefna að 19 metra há stífla yrði steypt við útfall Eyvindarfjarðarvatns og miðlunarlón myndi hækka vatnsborðið um 16 metra. Eyvindarfjarðarvatn nýtur sérstakrar verndar náttúruverndarlaga og óbyggð víðerni ber einnig að forðast að skerða. Drangavík er hluti af tillögum Náttúrufræðistofnun Íslands frá apríl 2018 um friðlýsingu víðernanna við Drangajökul,“ segir í tilkynningunni.

Landeigendurnir tíu segjast auk þess enga heimild hafa gefið fyrir virkjun Eyvindarfjarðarár. „Vatnsréttindi hennar, sem njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár, tilheyra jörð okkar samkvæmt fyrrnefndri landamerkjaskrá. Hafa hvorki Árneshreppur né Vesturverk nokkru sinni leitað eftir samþykki okkar við áformunum,“ segir í tilkynningunni.