Hilda er látin: „einstök kona og ógleymanleg“

\"\"Sú merkiskona, Hilda Torfadóttir, er gengin veginn á enda. Hún var virtur kennari, sló ítrekað í gegn sem útvarpskona hjá Ríkisútvarpinu, þá lét hún að sér kveða í stjórnmálum og var í framboði fyrir Kvennalistann. Hilda fæddist þann 26. októ­ber 1943 í Reykja­vík. Hún lést á Ak­ur­eyri 8. októ­ber 2019. Hilda giftist árið 1970 Hauki Ágústssyni sem starfaði sem kennari og prestur. Eignuðust þau soninn Ágúst Torfa. Fjölmargir minnast þessara merku konu á samfélagsmiðlum.

Hilda var menntaður kennari og sérhæfði sig í Noregi með námi í talkennslu. Lengst af starfaði Hilda á Akureyri en þangað flutti hún árið 1985 og kenndi þar til ársins 2004, fyrst við Barna­skóla Ak­ur­eyr­ar en síðan Síðuskóla, þar sem hún kenndi tölvu­fræði, en hún hafði aflað sér meist­ara­mennt­un­ar á því sviði undir lok starfsferils síns.

Hilda var var veður­at­hug­un­ar­maður á Hvera­völl­um á Kili 1971-72. Þá sló hún í gegn hjá Ríkisútvarpinu en hún var þar dagskrárgerðarmaður árin 1976 til 1977 og hjá RÚVAK frá upphafi.

Hilda tók virkan þátt í menningarlífinu á Akureyri. Til margra ára skipulagði hún tónlistarviðburð á Akureyrarvöku sem fékk nafnið Söngur og súkkulaði. Þá bauð hún öllum sem vildu, að hlýða á tónlist á heimili sínu  og fengu gestir ávallt heitt súkkulaði og kleinur.

Hilda greindist með park­in­sons­sjúk­dóm­inn fyrir um 25 árum og tók þá við nokkur barátta, hún var þó áfram sama félagsveran. Hilda varð m.a. formaður Parkinsonfélagsins á Akureyri og nágrennis. Hún hélt áfram að mennta sig og kenna.

\"\"

Hilda sló eins og áður segir í gegn í Ríkisútvarpinu og stýrði ýmsum þáttum hjá RÚVAK þegar það hóf starfsemi sína á 9. áratugnum. Þar hafði Hilda umsjón með þáttum, sem allir urðu vinsælir, Á sveitalín­unni (1983), Laug­ar­dags­kvöld á Gili (1984), Dag­skrá í til­efni 125 ára af­mæl­is Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar (1986) og Í dags­ins önn: Heima og heim­an (1987). Þá stýrði hún, ásamt Hauki manni sínum, þáttum sem ætlaðir voru bæði fyrir börn og fullorðna.

Fjölmargir minnast Hildu á samfélagsmiðlum. Sonur hennar Ágúst Torfi birtir falleg minningarorð en hann segir: „Þeir sem hana þekktu vita að hún var einstök kona og var mér afar góð móðir svo vægt sé til orða tekið. [...] Hún var mjög félagslynd og hélt fjölmenn spilakvöld, kvennaboð og tónleika á heimili þeirra foreldra minna til margra ára. Það var um árabil auglýstur dagskrárliður á Akureyrarvöku að það væru tónleikar í stofunni heima. Slík var gestrisnin hjá móður minni. Þegar heilsa mömmu var farin að bila verulega þá komu vinir víða að til að græja allt og gera fyrir á annað hundrað tónleikagesti. Mamma stóð svo upp og hélt gallalausar ræður og bauð alla velkomna á heimilið til að hlýða á ljúfa tóna.“

\"\"

Hilda var talmeinafræðingur og hjálpaði ótal krökkum með ýmsar sérþarfir. Á samskiptamiðlum má sjá fyrrum nemendur þakka henni fyrir hjálpina. Ágúst segir:

„Hún hafði af því sérstaka ánægju að hjálpa ungum börnum við að vinna bug á ýmsum talgöllum.“

\"\"

„Mamma gaf mér mörg heilræði í gegnum tíðina og ég hygg að ráðleggingar hennar til mín, bæði þær sem ég fór eftir og hinar líka, hafi allar verið réttar. [...] Það heilræði sem mamma gaf mér og kemur oftast uppí huga minn er:

„Þú sérð alltaf meira eftir því sem þú gerir ekki heldur en því sem þú gerir.“

Hún hvatti mig til að gera, upplifa, ferðast og njóta. Það tekst stundum. Minning lifir um einstaklega góða móður og konu sem unni samfélagi sínu og gerði því gagn á ótal vegu af mikilli óeigingirni.“

\"\"

Þá skrifa margir falleg minningarorð undir texta Ágústs. Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu segir:

„Hún var félagsmála- og menningarfrömuður mikill sem samfélagið á margt að þakka. Blessuð sé minning hennar.“

\"\"

Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi ritar:  „Einstaklega kraftmikill kennari sem hafði mikil áhrif á samferðafólk sitt.“

Höskuldur Þórhallsson fyrrverandi þingmaður segir: „Minnist Hildu af hlýhug og með góðar minningar hversu náin vinátta var á milli hennar og foreldra minna. Ef einhver gat komið mömmu til að hlæja þá var það mamma þín. Guð blessi ykkur öll.“

\"\"

Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður segir: „Hilda frænka mín var einstök kona á alla lund og ógleymanleg. Kveð hana með djúpri virðingu og þökk.“

Þá segir Sigvaldi H. Ragnarsson fyrrum nemandi Hildu:

„Móður þinni á ég mikið að þakka vegna þeirrar aðstoðar sem hún veitti mér sem ungum dreng með talvandamál og kannski eins og þú segir sjálfur þá hef ég lítið þagnað eftir það :). Blessuð sé minning Hildu Torfadóttur þeirrar góðu konu, hennar mun ég ætíð minnast með hýlju og virðingu.“