Upplýsingar dv rangar: illugi ekki með 14 milljónir

Uppfært: lllugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, var ekki með 14 milljónir á mánuði á síðasta ári. Í gær fullyrti DV að Illugi hafi fengið þessa upphæð greidda á mánuði og vitnaði í Tekjublað sitt sem til stóð að kæmi út í dag.

Útgáfu þess hefur þó verið frestað til morguns en upprunalega átti blaðið að koma út í dag. DV fullyrti í frétt sinni að tekjur Illuga væru rúmar 14 milljónir á mánuði og var birt mynd af Illuga með fréttinni.  Sú frétt er enn á vef DV í dag þegar þessi frétt er skrifuð.

Hringbraut tók upp frétt DV en hefur hún verið uppfærð og breytt þar sem hún er byggð á röngum upplýsingum.

Í umfjöllun DV virðist sem komman hafi skolast til þar sem Stundin greinir frá því í dag að Illugi hafi verið með 1,4 milljónir króna á mánuði í fyrra samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Það þýðir að Illugi hafi verið með 16,8 milljónir króna í heildarárstekjur.

Hringbraut biður Illuga velvirðingar á þeim óþægindum sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna fréttarinnar. Hringbraut treysti á að þær upplýsingar væru réttar sem birtust á vef eins stærsta fjölmiðils landsins, DV, sem enn hefur ekki verið breytt þegar þetta er skrifað.

Illugi vék af þingi árið 2010 eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var birt vorið 2010. Í umfjöllun DV um það máli sagði að í skýrslunni hefði verið vikið að starfsháttum Sjóðs 9, peningamarkaðssjóðs sem var í eigu Glitnis. Var sjóðurinn tekinn til sérstakrar skoðunar í kjölfarið. Á Alþingi kom fram fyrirspurn um hvort einhverjir peningar hefðu verið teknir frá ríkinu til að leysa mál Sjóðs 9. Steingrímur J. Sigfússon sem þá var fjármálaráðherra var til svara og neitaði að svo hefði verið. Illugi ákvað sjálfur, eins og kemur fram að ofan, að víkja af þingi  en málum hans var vísað til athugunar hjá sérstökum saksóknara af rannsóknarnefnd Alþingis. Illugi sneri svo aftur úr leyfi árið 2011.

Illugi sagði í viðtali við DV árið 2011: „Mótlæti sem hver og einn verður fyrir, reynir á hvaða mann fólk hefur að geyma og hvernig það bregst við þeim áföllum sem það verður fyrir. Þegar ég settist í stjórn Sjóðs 9, hugsaði ég með mér að það væri gott eftirlit með sjóðnum af hálfu Fjármálaeftirlitsins, þeir væru skráðir í Kauphöll Íslands auk þess sem Seðlabankinn fylgdist með. Þetta væri gegnsætt kerfi og hlutverk stjórnar sjóðsins var ekki að taka ákvarðanir um einstakar fjárfestingar, heldur meðal annars að fylgjast með því að fjárfestingastefnu væri fylgt og að allt væri samkvæmt röð og reglu. Ég taldi því í ljósi þessa að mér væri óhætt að sitja í þessari stjórn. En síðan hrynur heimurinn og allt fer á hvolf. Það tóku við margir mánuðir þar sem lífið snérist um að vinna sig úr þessu máli og klára það. Þetta var ekki skemmtilegur tími, auðvitað hugsaði maður með sjálfum sér hvernig í ósköpunum gat staðið á því að maður væri komin í svona stöðu.

Illugi var um tíma aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar. Um Davíð sagði Illugi:

Enn og aftur þá lít ég á mig sem gæfumann þegar ég hugsa um það hverja ég hef hitt og fengið að kynnast. Það var mjög gott að vinna fyrir Davíð. Hann var góður yfirmaður en það var mjög krefjandi að vinna fyrir hann. Illugi tjáði sig um Davíð við DV árið 2011. Þar sagði Illugi meðal annars:

„Þetta var afskaplega skemmtilegur tími og virkilega gefandi. Davíð er mjög magnaður persónuleiki. Ég hef séð minna af honum eftir að ég fór sjálfur í pólitíkina og hann í Seðlabankann og svo upp á Morgunblað en mér er hann mjög kær.“