Búið að troða nöglum í harðfisk og setja inn á lóð egils: „það myndi eitthvað gerast í kerfinu ef það væri byrlað svona fyrir barni“

Egill Örn varð var við eitthvað óvenjulegt á lóðinni hjá sér við Langeyrarveg í Hafnarfirði í vikunni þegar hundurinn hans Ernir var skyndilega kominn með eitthvað í kjaftinn.

„Ég fann þetta og um það bil tíu samskonar harðfisk búta í vikunni í afgirtum garði við lóðarmörk Langeyrarvegar og Skerseyrarvegs í Hafnarfirði. Búið að troða nöglum inn með fiskinum og koma þessu fyrir á lóðinni þannig að lítið bæri á. Hundurinn var kominn með einn bút í kjaftinn þegar ég sá að hann var með eitthvað óvenjulegt og athugaði málið,“ segir Egill Örn og tekur fram að lóðin sé afgirt almenningi í að minnsta kosti þrjátíu metra radíus frá staðnum þar sem harðfiskurinn fannst.

Í samtali við Hringbraut segist Egill ekki vera búinn að heyra af neinu frekar sem gagnast hefur við rannsókn málsins en hún liggur á borði Lögreglunnar í Hafnarfirði.

\"\" \"\"

Réttindi gæludýra lítil

„Ég verð að treysta þeim til þess að hafa uppi á sökudólgnum og beini öllum athugasemdum til þeirra. Það er ótrúlegt hvað réttindi þessara ástvina manns eru þó lítil. Ég á engin börn en hundurinn er mér sem barn og það myndi eitthvað gerast í kerfinu ef það væri byrlað svona fyrir barni,“ segir Egill við blaðamann og viðurkennir að vera alveg miður sín yfir atvikinu.

\"\"

Egill hvetur dýraeigendur til þess að skoða garðana sína vel þar sem gæludýr virðist ekki geta verið óhult í sínum eigin garði. Biður hann alla þá sem hugsanlega geta veitt upplýsingar um málið að hafa samband við Lögregluna í Hafnarfirði.