Vöndum meir orðræðuna

Nú er mikið talað um spillingu á Íslandi. Réttilega eru mútur og spilling sögð alþjóðleg óværa sem hindri framþróun, ýti undir fátækt og stuðli að óréttlæti. Það dragi úr trausti sem undirstöðu frjálsra viðskipta.

En því er haldið fram á torgum og þingi að Ísland sé allt gjörspillt. Skiptir þá engu hvort um sé að ræða viðskiptalíf eða stjórnkerfi. Gífuryrðin eru mörg og stór og flest vanhugsuð.

Því er haldið fram af miklum ákafa að atvinnulífið allt og stjórnkerfið séu svo gjörspillt að bylta verði öllu. Eignaupptöku er jafnvel krafist og sótt að þeim er stýra fyrirtækjum og stofnunum. Menn næra reiði og hræðslu og blása til útifunda eða málþinga í sjónvarpssal til að magna æsinginn.

Það þarf að vanda opinbera orðræðu. Þrátt fyrir að hér kunni að koma upp grafalvarleg mál sem bendi til mútugreiðslna og þarf að sjálfsögðu að rannsaka, er ekki hægt að fullyrða að Ísland allt sé spillingarbæli. Það er ósanngjarnt gagnvart því fjölmarga heiðarlega fólki sem lætur gott af sér leiða í íslensku viðskiptalífi fyrir land og þjóð. Þó að einstaka fyrirtæki liggi undir grun um að beita óeðlilegum viðskiptaháttum eða mútubrotum verður ekki sagt að það eigi við um meirihluta atvinnulífsins og má ekki dæma.

Það er því til vitnis um grunnhyggni þegar stjórnmálamenn sjá ávinning í að fordæma Ísland allt af því þeim mislíkar meint athæfi eins fyrirtækis. Það er við slíkar aðstæður sem fylgi ofstækisfullra flokka vex og dafnar. Það er ekki einungis erlendis sem öfgaflokkar blása út eins og púkinn á fjósbitanum þegar jafnaðarmönnum og annars hófsömum öflum tekst að vekja hræðslu og æsing í samfélaginu. Menn skyldu fylgjast vel með niðurstöðum kannana um fylgi stjórnmálaflokkanna.

Því verður ekki haldið fram með neinni sanngirni að atvinnulífið í landinu skorti siðferðileg viðmið og alla samfélagslega ábyrgð. Það er einfaldlega ekki rétt. Langflest íslensk fyrirtæki starfa heiðarlega bæði heima og að heiman.

Mörg af öflugri fyrirtækjum landsins hafa á síðustu árum unnið að því að axla í auknum mæli samfélagslega ábyrgð, þróað betri stjórnarhætti og hugað meira að áhrifum á umhverfi og samfélag. Það er vegna meiri lagalegra krafna á sviði umhverfismála og betri stjórnarhátta. En það kemur líka til vegna þess að athafnalífið sjálft skynjar tækifæri í betri starfsháttum. Samfélagsleg ábyrgð og betri stjórnarhættir á borð við gagnsæi eru ráðandi í starfsemi atvinnulífsins á Íslandi enda aflgjafi og uppspretta nýrra tækifæra.

Auðvitað má margt laga en í stað þess að mála skrattann á vegginn með alhæfingum ætti að nýta vel það tækifæri sem nú er í samfélaginu til að gera enn betur. Þá erum við á réttri leið.

Höfundur er ritstjóri Fréttablaðsins.

Birtist fyrst á frettabladid.is