Óttar rifjar upp skuggahliðar Jónasar: „Ekki líklegur til frekari afreka“ þegar hann lést

Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson hefur verið áberandi að undanförnu vegna auglýsinga þar sem Jónas – eða öllu heldur styttan af honum í Hljómskálagarði – stígur niður af stalli sínum og grennslast fyrir meðal Íslendinga um stöðu íslenskrar tungu.

Í nýlegum pistli í Fréttablaðinu segist geðlæknirinn Óttar Guðmundsson einmitt hafa rekist á Jónas í Hljómskálagarðinum þegar hann var á leið aftur upp á stall sinn. Í endursögn sinni af samtali þeirra félaga rifjar Óttar upp nokkrar hliðar Jónasar sem Íslendingar eru lítið að flíka. Bendir hann á að Jónas hafi haft dálæti á vændiskonum og hafi verið illa haldinn úr alkóhólisma þegar hann lést. Hann hafi því síst verið líklegur til frekari afrekar þegar dauða hans bar að með svo sviplegum hætti árið 1845.

Í frásögn Óttars segir Jónas þjóðina hafa tekið sig í dýrlingatölu að honum látnum, samið um hann helgisögur og harmað ljóð sem hann náði aldrei að yrkja. „Kannski ætti að breyta heiðursverðlaununum mínum og veita þau íslensku skáldi sem getur ort hringhendu og sléttubönd og verið edrú í fimm ár,“ hefur Óttar eftir skáldinu. „En það mundi ganga af verðlaununum dauðum.“