Vonbrigði og vinstri græn í krísu

Björn Valur Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og varaformaður Vinstri grænna, skrifar í dag athyglisverðan pistil á vef sinn, bvg.is.

Þar segir hann flokkinn vera í krísu eftir kosningarnar og segir umboð þingflokksins til stjórnarmyndunar vera mjög takmarkað, hvað þá til að veita henni forystu.

Björn Valur skrifar meðal annars:

„Eftir að hafa keyrt kosningabaráttuna nær eingöngu á ágæti formannsins, jók flokkurinn fylgi sitt aðeins um rétt tæpt 1% frá síðustu kosningum og var reyndar aðeins örfáum atkvæðum frá því að tapa manni í kjördæmi formannsins. Vinstri græn bættu við sig einum þingmanni, hinum ágæta Ólafi Þór Gunnarssyni, 54 ára gömlum karlmanni úr Kópavogi. Flokkurinn dalar í báðum norðurkjördæmunum en bætir örlitlu við sig á SV horninu. Málefnalega séð fengu stefnumál Vinstri grænna ekki þann hljómgrunn meðal kjósenda sem vonast var eftir hvernig sem á því stendur. Fyrir okkur Vinstri græn eru úrslitin því talsverð vonbrigði og það er erfitt að sjá fyrir sér að flokkurinn muni leiða næstu ríkisstjórn. Umboð þingflokksins til myndunar ríkisstjórnar er einnig afar veikt og takmarkað af hálfu kjósenda flokksins.“

Þessi greining er talsvert á skjön við túlkun Katrínar Jakobsdóttur á úrslitunum, sem vinnur nú að því að fá umboð til stjórnarmyndunar.