Vinnumálastofnun (VMST) áætlar að 2.500 ný störf muni verða til á árinu. Þrátt fyrir þessa áætluðu fjölgun starfa mun atvinnuleysi einnig aukast, þar sem áætluð fjölgun starfa sé minni en fyrirsjáanleg fjölgun fólks á vinnumarkaðsaldri að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá VMST, í samtali við Mbl.is.
Karl gerir ráð fyrir að meðaltali 2,8% atvinnuleysi í ár, en það var 2,3% á nýliðnu ári.
Í frétt Mbl.is kemur einnig fram að gangi spá VMST um fjölgun starfa eftir munu yfir 33.000 ný störf hafa orðið til í efnahagslegri uppsveiflu undanfarinna ára og væri það þá Íslandsmet í fjölgun starfa. Í upphafi síðasta árs áætlaði VMST einnig að 2.500 störf yrðu til en áætlar nú að 4.000 störf hafi orðið til á árinu 2018, sem er mikið í sögulegu samhengi.