Vill erlendan banka til landsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var gagnrýninn á íslenska bankakerfið í sjónvarpsþættinum Þjóðbraut í gærkvöld og taldi að því veitti ekki af samkeppni erlendis frá.

Hann var sérstaklega gagrýninn á framgöngu Landsbankans að undanförnu og sagði \"afleitt\" að hann hefði gengið jafn hart fram og raun ber vitni í að soga til sín sparisjóðina hringinn í kringum landið. Sparisjóðirnir væru samfélagslega mjög mikilvægir og veruleg eftirsjá væri af starfsemi þeirra víða um land, enda hefðu þeir löngum verið bakbeinið í atvinnurekstri smærri sveitarfélaga. Leita þyrfti leiða til að endurvekja kröftuga sparisjóðastarfsemi og sagði hann í því efni vert að skoða hugmyndir flokksbróður síns, Frosta Sigurjónssonar um að breyta Landsbankanum, sem að meginhluta er í eigu ríkisins, í svokallaðan samfélagsbanka.

Almennt taldi hann að það sæist ekki á starfsemi Landsbankans að hann væri að meginhluta í eigu ríkisins, en illfært væri fyrir stjórnmálamenn að ráða þar nokkru um vegna armlengdarinnar sem menn hefðu kosið að hafa á milli stjórnmálanna og fjármálakerfisins, en því væri samt ekki að leyna að stundum hin seinni misserin hefði það óneitanlega verið svo að sér hefði fundist nauðsynlegt að geta gripið inn í atburðarásina í bankakerfinu hér á landi. En hann væri bara ekki í færum til þess, mætti það ekki.

Hann sagði samkeppni sárlega skorta á fjármálamarkaðnum á Íslandi og kallaði eftir því í þættinum að erlendur banki hæfi starfsemi hér á landi til að veita þeim bönkum sem fyrir eru harða samkeppni. Almenningur ætti skilið betri kjör í bankakerfinu en nú væri boðið upp á. Það væri hins vegar ekki sama með hvaða hætti erlendur banki hæfi starfsemi hér á landi; honum litist best á einhvers konar útibú erlends banka hér á landi, en frábiði sér hugmyndir um einhvers konar fjárfestingarbanka sem kæmi hingað til lands í þeim eina tilgangi að hámarta hér hagnað sinn á kostnað Íslendinga - og fara með allan gróðann úr landi.

Þjóðbraut er hægt að skoða í heild sinni inni á hringbraut.is og í klippum á sama stað.