Viljum við afslátt af öryggi sjúkra?

Þorsteinn Pálsson segir í nýjum pistli sínum á hringbraut.is að það hljóti að vera álitaefni hvort helgi leikreglunnar í verkföllum sé svo rík að efi um öryggi sjúklinga eigi líka að víkja fyrir henni.  


"Í raun og veru er verið að gera lítið úr mikilvægi einstakra stétta heilbrigðisþjónustunnar þegar löggjafinn gengur út frá því að í verkfalli megi tryggja öryggi sjúklinga með undanþágunefndum. Á  hverjum tíma er þörf á fullmönnuðum spítala til að fyllsta öryggis sé gætt. Hvernig geta kjaradeilur réttlætt afslátt frá því viðmiði," spyr Þorsteinn í pistli sínum sem vakið hefur mikla athygli í miðju verkfalli félagsmanna BHM.


Hann bætir við: "Um sumt er skiljanlegt  að ríkisstjórnin skuli ekki hafa hlaupið strax til eftir álit landlæknis og sett lög á verkföll í heilbrigðisþjónustunni. Það er býsna snúinn og vandrataður vegur í miðri deilu. En álitið getur þó  ekki staðið án viðbragða. Aukheldur væri það fullkomið ábyrgðarleysi eftir það sem á undan er gengið og með hliðsjón af áliti landlæknis að leita ekki tafarlaust nýrra leiða með nýrri hugsun um hvernig ákveða megi laun og kjör starfsfólks í heilbrigðisþjónustu án verkfalla í framtíðinni."


Pistil sinn endar Þorsteinn með þessum orðum: "Það verður ekki gert nema menn finni leiðir sem starfsfólkið hefur trú á að tryggi að það dragist ekki aftur úr öðrum. Metnaður stjórnvalda hlýtur líka að standa til þess. Verkefnið er sannarlega ekki einfalt. En undan því verður ekki vikist að taka það til umræðu og úrlausnar. Frumkvæðisskyldan hvílir á heilbrigðisráðherra."