Segir víkverja ráðast á hinsegin fólk

Ragnhildur Sverrisdóttir fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu um langt skeið, eiginkona Hönnu Katrínar Friðrikson þingmanns og dóttir Sverris Hermannssonar fyrrum ráðherra bregst illa við Víkverja Morgunblaðsins. Á facebook síðu sína skrifar Ragnhildur og vitnar í póst sem hún sendi á höfund Víkverja Morgunblaðsins í fyrradag:

“Pistill þinn um alnæmi er ekkert annað en högg í andlit hinsegin samfélagsins, sem var harkalega leikið af alnæmisfaraldrinum á 9. áratug síðustu aldar. Ég ein gæti sjálfsagt talið upp tugi ungra homma, sem urðu þessum skelfilega sjúkdómi að bráð. Í mörgum tilvikum dóu þeir í felum, fjölskyldur þeirra vildu ekki viðurkenna að þeir hefðu látist úr sjúkdómnum, sem óupplýstir hræsnarar töldu sérstaka refsingu guðs fyrir líferni þeirra. Sumir dóu einir í útlöndum, fjarri ættingjum sem ekkert vildu með þá hafa.

Ég leyfi mér að setja hér með pistil Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, fyrrverandi formanns Samtakanna 78, á Facebook:


\"Þvílíkt bylmings kjaftshögg á okkur sem lifðum AIDS tímana með allri sinni sorg! Fjölskyldur sem horfðu á eftir kornungum ástvinum í gröfina. Vinir úr hinsegin samfélaginu sem reyndu af veikum mætti að styðja og hjúkra þeim sem voru að deyja. Svo ekki sé minnst á áhugaleysi, fordóma og illsku almennings gagnvart þeim sem smituðust. Ég er miður mín.

Þessi Víkverji á umsvifalaust að koma fram undir nafni og biðjast afsökunar. Og svo það sé á hreinu þá hefur ekkert breyst varðandi HIV og AIDS: ef þú veikist og færð ekki lyf, þá deyrðu. Þetta sár er óuppgert í íslenskri samtímasögu.\"

\"Ég get tekið undir hvert orð Lönu\", skrifar Ragnhildur. \"Þessi skrif eru mjög ónærgætin og sérstaklega sárt að þau skuli koma beint í kjölfar Hinsegin daga. Þá er ég aðeins að vísa til okkar hér á Íslandi, því Víkverja hlýtur að vera fullkunnugt um hverslags skelfileg heilbrigðisógn alnæmi er og hefur verið t.d. í Afríku. Nei, mannkynið þurrkaðist ekki út í einu vetfangi, en alnæmið er skelfilegur sjúkdómur sem felldi svo marga af minni kynslóð. Því mun ég aldrei gleyma. Og ég - og annað hinsegin fólk - gerir þá kröfu til Morgunblaðsins að ekki sé vaðið yfir minningu þeirra á skítugum skónum og það af ekki merkilegri ástæðu en að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur í loftslagsmálum!\"

\"Kannski var málið ekki jafn alvarlegt og talið var\" skrifar Víkverji.

\" Það er skömm að þessu!\" endar Ragnhildur bréfið á og svo þessu: \"Með von um einlæga afsökunarbeiðni í Morgunblaðinu. 

- Ragnhildur fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu.\"

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor er meðal þeirra sem tekur undir þetta á fb síðu sinni:

“Það þarf ekki að hafa fleiri orð um þessi skrif - þær Ragnhildur Sverrisdóttir og Lana Kolbrún Eddudóttir segja allt sem segja þarf - en líklega eru þau skrifuð þar sem ekki hefur verið gert upp við þennan tíma hér á landi - eins of fram kemur hjá þeim stöllum”.