Vegagerðin: þjóðvegum lokað oftar

Aldrei áður hefur það gerast að lokanir hafi verið jafn víðtækar á landinu öllu eins og á mánudag samkvæmt svari frá G. Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni til upplýsingaveitunnar Spyr.is.

Hann segir þar að Vegagerðinni hafi ekki í annan tíma tekist  að opna jafnauðveldlega og fljótlega eins og gekk fyrir sig á þriðjudag og má það rekja til breytts verklags hjá Vegagerðinni. Í fyrra byrjuðu þeir að loka fjallvegum áður en veður skall á, til að fækka þeim bílum sem lenda í vandræðum, en því lengri tíma taki að opna vegi að nýju eftir því sem fleiri bílar eru fastir á vegunum. Einnig er Vegagerðin farin í auknum mæli að loka vegum vegna hvassviðris, en ekki bara þegar það er ófært vegna skafrennings og ofankomu. 

Lesandi spyr: Hefur það einhvern tíman gerst áður á Íslandi að 600km samfelldri vegalengd hefur verið lokað á Íslandi vegna veðurs? Væri áhugavert að heyra um fleiri dæmi og/eða hvort þetta hafi verið í fyrsta sinn í sögunni? Sjá frétt á mbl.is

Fyrir hönd Vegagerðarinnar svaraði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi: \"Það var töluvert mikið um lokanir síðasta vetur og ekki ólíklegt að svona langur kafli hafi lokast en við höfum ekki safnað upplýsingum á þann hátt. Það lokuðust t.d. á tímabili í fyrra allar leiðir út frá höfðuborginni í einu þótt ekki væri það í mjög langan tíma. En það er óhætt að segja að lokanir líkar þeim sem voru í gær hafa ekki áður verið svona víðtækar á landinu öllu.

Okkur hefur hins vegar ekki heldur tekist áður að opna jafnauðveldlega og jafnfljótlega einsog gekk í dag. Vegagerðin hefur breytt um verklag með breyttum tímum og byrjaði í fyrra að loka fjallvegum (fyrst og fremst) í auknum mæli áður en veður skellur á, eða eins snemma og fært þótti til að fækka sem mest má þeim bílum sem lenda í vandræðum.

 

 

Fastir bílar á heiðum leiða til þess að mun lengri tíma getur tekið að opna vegina að nýju. Einnig hófum við að loka vegum vegna veðurs, vegna hvassviðris frekar en beinlínis að ófært væri vegna snjóa. Það tókst líka nokkuð vel og eins tókst það mjög vel í gær. Með aukinni ferðamennsku þar sem fjöldi útlendinga er á ferð sem þekkja illa til aðstæðna á Íslandi auk þess sem fleiri og fleiri innlendir ökumenn eru óvanir vetrarakstri er talið rétt að fara þessa leið að loka vegum rétt á meðan verstu veður ganga yfir.\"