Uppfærðar samskiptareglur á milli lækna og lyfjafyrirtækja - eru sagðar hafa sannað gildi sitt í því að eyða tortryggni

Við setningu Læknadaga 2020 í Hörpu skrifuðu Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, undir uppfærðan samning um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf. Siðareglurnar byggja á nýuppfærðum reglum EFPIA – Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök.

Nokkur reynsla er komin á reglur sem þessar og hafa þær sannað gildi sitt í því að eyða tortryggni og taka af vafa um mörk í samskiptum framleiðenda lyfja og heilbrigðisstarfsfólks. Samkomulagið sem nú hefur verið uppfært og undirritað byggir á grunni fyrra samkomulags frá árinu 2013.

Í tilkynningu um vegna samningsins er sagt að samskipti lækna og lyfjafyrirtækja sé mikilvægur þáttur í þróun sífellt betri lyfjameðferða við sjúkdómum og í fræðslu lækna um meðferð lyfja.  Bæði læknar og lyfjafyrirtæki hafa að markmiði að bæta meðferð sjúkdóma og líðan sjúklinga. Aðilar samningsins segjast vera sammála um að samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja skuli þannig háttað hverju sinni, að hvor aðili sé hinum óháður í einu og öllu. Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu eru aðilar að samningum og því ná reglurnar einnig til þeirra aðildarfyrirtækja.

„Um leið og samskipti heilbrigðisstarfsfólks og lyfjafyrirtækja eru mjög mikilvæg eru þau um leið vandmeðfarin. Þess vegna er mikilvægt að til grundvallar samskiptunum liggi skýrar siðareglur. Í þessum efnum hafa lyfjaframleiðendur verið í forystu og gengið hvað lengst í setningu slíkra reglna, og í raun til fyrirmyndar fyrir aðrar atvinnugreinar,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

„Góð samskipti og heilbrigt samstarf hafa einkennt farsælt samstarf lækna við lyfjafyrirtæki um rannsóknir og fræðslu. Óvíða eru framfarir og breytingar örari en einmitt á sviði lækninga og lyfjaþróunar og traust samvinna er forsenda þess að hér standist heilbrigðiskerfið áfram samanburð við það sem best gerist í heiminum. Trygg umgjörð þar sem tekinn er af vafi um mörk í þessum samskiptum eru lóð á vogarskál bættrar þjónustu heilbrigðisstarfsfólks við sjúklinga,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.