Ummæli Eyþórs fordæmd: „Senda manninum rósabúnt sem stingur hressilega“

Eyþór Þorbergsson, varasaksóknari hjá Lögregluembættinu á Norðurlandi eystra, hefur verið kallaður öllum illum nöfnum eftir ummæli sem hann lét falla í viðtali við Vísi í dag.

Þar var hann spurður út í úrskurð Héraðsdóms fyrir norðan að það hafi verið ólögmætt af lögreglu að gera blaðamanninn Aðalstein Kjartanson að sakborningi. Hann sagði úrksurðin ekki vera áfall, enda væri hann ekki viðkvæmur.

„Ef þú þolir ekki gagnrýni um sjálfan sig, og það má segja það um blaðamenn líka, eiga menn bara að vera í blómaskreytingum.“ sagði Eyþór í kjölfarið og ítrekaði það síðan. „Já, sumir ættu að vera í blómaskreytingum.“

Þessi ummæli Eyþórs hafa ekki farið vel ofan í alla, og mætti segja að ákveðinn starfstétt sé ansi reið vegna þeirra. Umrædd starfstétt er ekki blaðamenn, heldur blómaskreytingafólk, sem finnst illa að sér vegið.

„Pabbi minn hafði blóma skreytingar sem sitt aðal starf í um 20 ár. Svo seldu mamma og pabbi þann rekstur og pabbi minn for að vinna sem fangavörður. Pabbi er síðasti maðurinn á jörðinni sem ég myndi flokka sem viðkvæman. Á reyndar töluvert af frændum sem vinna í blóma skreytingafaginu sem myndu ekki hika við að gefa saksóknaranum einn á lúðurinn fyrir það að kalla þá viðkvæma,“ sagði Einar Bárðarsson, gjarnan kallaður umboðsmaður Íslands, til að mynda.

Umræðan hófst á Facebook-hópnum Ræktaðu garðinn þinn – Garðyrkjuráðgjöf, en þar voru meðlimir spurðir hvort að ekki þyrfti að krefja Eyþór um skýringu á ummælum sínum. Viðbrögðin stóðu ekki á sér.

„Mér finnst þetta bara alveg ótrúlegur hroki og dónaskapur. Eiga þeir sem starfa við blómaskreytingar að vera eitthvað viðkvæmari en aðrir? Eins og það sé eitthvað auðvelt að útbúa td útfaraskreytingar fyrir börn og ungt fólk.“ sagði til að mynda einn meðlimur.

Annar sagði: „Þetta er vissulega smánun gagnvart fólki sem vinnur við blóm.

En á sama tíma gríðarlegur valdahroki í garð fólks sem valdstjórnin var þarna að beita sér gagnvart (sem hann er fulltrúi fyrir) og var rekin til baka með. Hann slær þarna til þeirra fyrir að verja sig gegn valdi ríkisins.“

Þá heimtuðu einhverjir að Eyþór ætti hreinlega að hætta í starfi vegna ummælanna.

„Auðvitað á að reka svona hrokagikki sem ekki kunna mannasiði úr starfi ekki seinna en strax,“ sagði einn meðlimur hópisns, og annar var á sama máli: „Viðkomandi ætti að axla sinn poka og fara.“

Ummælin eru talsvert fleiri og jafnvel óvægari, en þegar þessi frétt er skrifuð eru þau enn að hrúgast inn. Ein ummælin eru þó sérstaklega eftirminnileg, en þar er stungið upp á því að gefa Eyþóri blómvönd.

„Það er engin rós án þyrna. Það þyrfti að senda manninum rósabúnt sem stingur hressilega.“