Traust er forsenda fyrir óbeinum eignarrétti í sameign þjóðarinnar

Samherjamálið hefur vakið dýpri og þyngri viðbrögð hjá fólkinu í landinu en dæmi eru um eftir hrun. Gamla spurningin er afturgengin: Létum við okkur hrunið ekki að kenningu verða? Og spurningar um margvísleg viðbrögð vakna réttilega.

En að einu þarf ekki að spyrja: Traust hlýtur að vera forsenda fyrir því að einstaklingar eða fyrirtæki geti farið með óbeinan eignarrétt í sameign þjóðarinnar.

Vitaskuld er það svo að eigendur og stjórnendur Samherja hafa ekki verið dæmdir sekir af dómstólum. Réttarstaða þeirra í umræðunni helgast af því, þangað til annað kemur á daginn. En sú réttarstaða stoppar ekki óhjákvæmilega umfjöllun um málið, sem þegar hefur valdið afsögn tveggja ráðherra í Namibíu.

Siðferðilegt áfall fyrir atvinnulífið og æðstu stjórn ríkisins

Frá pólitísku sjónarmiði var áttunda bindið í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis merkasti hluti hennar. Þar voru atburðir hrunsins settir í stærra samhengi og lagt á þá mat í ljósi góðra starfshátta og siðfræðilegra viðmiða.

Það er gífurlegt áfall fyrir íslenskt atvinnulíf þegar upplýsingar eru birtar, sem benda til þess að stjórnendur áhrifamesta fyrirtækis landsins virðast ekki hafa dregið lærdóm af þessum hluta skýrslunnar.

Þáverandi forseti Íslands fékk eina alvarlegustu siðferðilegu ádrepuna í rannsóknarskýrslunni. Það er ekki síður áfall fyrir æðstu stjórn ríkisins að í gögnum Samherja málsins kemur fram að embættið hefur þar dregist inn í sams konar iðju og áður þó að það sé ekki bendlað við lögbrot.

Hvað er til bragðs að taka?

Eitt er að nauðsynlegar opinberar rannsóknir þurfa að fara fram. Alvarlegustu ásakanirnar lúta að meintum mútum og skattsvikum eða skattasniðgöngu. Allt mun það taka sinn tíma.

Annað er að strax þarf að grípa til ráðstafana til þess að endurvekja traust. Æðsta stjórn ríkisins þarf að sýna fram á að forsetaembættið hafi lært sína lexíu. Það ætti að vera auðvelt, en þarf samt að gerast.

Og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök atvinnulífsins þurfa að sýna svart á hvítu að stjórnendur fyrirtækja, sem uppfylla ekki kröfur um góða viðskiptahætti, verði áhrifalausir á þeirra vettvangi.

Stærri sjávarútvegsfyrirtæki eiga að vera skráð á hlutabréfamarkaði

Síðan þarf tafarlaust að bæta löggjöf með ýmsum hætti í þeim tilgangi að byggja upp traust.

Í fyrsta lagi ætti að setja ákvæði í lög þar sem mælt yrði fyrir um að þeim fyrirtækjum sem ráða yfir meira en einu prósenti af heildaraflahlutdeild verði gert skylt að vera skráð á almennum

hlutabréfamarkaði. Í því felast ríkari kröfur um vandaða starfshætti og það gerir fjárhagsupplýsingar gagnsærri og eftirlit auðveldara.

Í öðru lagi ætti að skerpa á ákvæðum um hámark heildaraflahlutdeildar einstakra fyrirtækja og tengdra fyrirtækja.

Í þriðja lagi ætti að setja aftur inn í lög ákvæði um dreifða eignaraðild í þeim fyrirtækjum sem ráða yfir allra stærstri heildaraflahlutdeild. Slíkt ákvæði var einhverra hluta vegna fellt út úr upprunalegu lögunum þegar stefndi í að á það reyndi.

Í fjórða lagi væri rétt að setja lagaákvæði sem mælti fyrir um að fyrirtæki yrðu að skila aflahlutdeild sinni ef stjórnendur eða eigendur þeirra verða uppvísir að mjög alvarlegri refsiverðri háttsemi eða meiri háttar brotum á skattalöggjöf.

Lagaákvæði af þessu tagi hafa ekki afturvirk áhrif. En þau eru mikilvæg og brýn í þeim tilgangi að byggja upp traust.

Grundvallaratriði að tímabinding afnotaréttar fari í stjórnarskrá

Þá verður ekki hjá því komist í framhaldi af þessum atburðum að ræða efni nýs stjórnarskrárákvæðis. Mikilvægasta grundvallaratriðið í því efni er að stjórnarskrárbinda tillögu auðlindanefndar Jóhannesar Nordals um að veiðirétturinn verði bundinn við tiltekinn tíma í senn. Það er forsenda fyrir því að unnt sé að tala í alvöru um sameign þjóðar.

Setja þarf reglur um raunverulegt auðlindagjald

Í framhaldinu væri eðlilegt að ræða endurgjald fyrir afnot af auðlindinni og aðferðir við að leggja það á. Um það á að fjalla í almennri löggjöf. Í dag er ekki greitt fyrir verðmæti afnotaréttarins. Handhafar aflaheimilda greiða hins vegar auka tekjuskatt, sem ranglega kallast veiðigjald. Þeir geta til að mynda lækkað það með fjárfestingum eða jafnvel kaupum á laxveiðileyfum.

Slíkar ráðstafanir minnka tekjuafganginn og lækka greiðsluna í sameiginlegan sjóð landsmanna. Líta má á þá lækkun sem opinberan styrk til fjárfestinga eða kaupa á laxveiðileyfum. Það vantar einhverja skynsemi í slíkt regluverk.

Skuggi Samherja fellur á Ísland

Vissulega er ekki sanngjarnt að háttsemi Samherja rýri traust annarra fyrirtækja í landinu. En Samherji er af þeirri stærðargráðu að skuggi hans fellur óhjákvæmilega á aðra. Hann fellur á Ísland.