Þrjár pólitískar hliðar kjarasamninganna

Hver á helst heiður af því að unnt var að leysa þann hnút sem kjaradeilurnar voru komnar í án frekari  verkfalla? Svarið er því miður gráglettið: Skúli Mogensen.

Sennilega hefur enginn forstjóri í föllnu félagi notið jafn mikils skilnings og velvildar í samfélaginu. Og flestir hefðu vissulega kosið að aðrir kraftar hefðu leitt til þessarar jákvæðu niðurstöðu í kjarasamningum miðað við það sem á horfðist.

En pólitíski veruleikinn er sá að kjarasamningarnir munu styrkja ríkisstjórnina. Hversu langvinnur sá ávinningur verður ræðst mikið af því hve traustar þær forsendur eru sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin byggja fyrirheit sín á.

Hugsanlegt er að samningarnir rétti aðeins málefnalega slagsíðu á ríkisstjórnarsamstarfinu

Minna má á að á sínum tíma höfðu þjóðarsáttarsamningarnir nokkur áhrif á að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hélt velli í kosningum árið eftir. Hún fór þó frá eftir kosningarnar vegna ágreinings um EES-samningana.

Aðstæður eru öðru vísu að þessu sinni því hugmyndafræðilegur ágreiningur sýnist ekki trufla núverandi stjórnarsamstarf með sama hætti. Flest bendir því til að það hefði haldið hver sem niðurstaða samninganna hefði orðið.

Fram til þessa hefur ríkisstjórnin málefnalega virkað sem eins flokks stjórn Sjálfstæðisflokksins. En núna hjálpar verkalýðshreyfingin VG til að koma sínum málum að. Það kemur þó aðeins á óvart að ráðherrar VG skuli ekki hafa nýtt þessa stöðu betur í þeim tilgangi.

En að öllu virtu er hugsanlegt að samningarnir rétti aðeins þá málefnalegu slagsíðu sem er á samstarfi flokkanna. En kannski hefur traust samstarf ríkisstjórnarflokkanna þó fyrst og fremst sýnt að það er ekki í raun sú hugmyndafræðilega gjá á milli þeirra sem margir héldu í byrjun.

Bóndabeygjan sem Seðlabankinn er settur í er pólitískt sprengiefni

Ríkisstjórnin fullyrðir að samningarnir og útspil hennar muni leiða til lækkunar vaxta. Ætla má að það loforð byggi á vissu um að meiri samdráttur verði í atvinnulífinu en áður var talið. Almennt stuðla langir kjarasamningar einnig  að stöðugleika. Engin ástæða er því til að draga í efa að loforðið standist.

En eigi að síður hefði það aukið traust ef aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin hefðu birt þá hagfræðilegu útreikninga sem eru forsenda loforðsins um vaxtalækkun því að það byggir augljóslega á greiningu en ekki tilfinningu.

Ákvæði kjarasamninganna um að þeir falli um sjálfa sig ef Seðlabankinn hækkar vexti er á hinn bóginn pólitískt sprengiefni. Seðlabankinn kemst einfaldlega ekki hjá því að reikna sig til sömu niðurstöðu og ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins við næstu vaxtaákvörðun. Vonandi gengur það upp án leikfimiæfinga með reiknistokkinn.

En fram hjá því verður ekki horft að stuðningur ríkisstjórnarinnar við samningsákvæði af þessu tagi grefur verulega undan trúverðugleikanum um sjálfstæði Seðlabankans. Loforð ríkisstjórnarinnar getur líka að sama skapi veikt trúverðugleika nýs Seðlabankastjóra sem hún skipar síðar á þessu ári. Sjálfstæði Seðlabankans hefur ekki áður verið ógnað með jafn raunverulegum hætti.

Engum vafa er þó undirorpið að þetta ákvæði mun hafa jákvæð áhrif bæði pólitískt og efnahagslega í byrjun. En séu forsendurnar fyrir þessu pólitíska vaxtalækkunarloforði tæpar eða óraunhæfar til lengri tíma getur það haft slæmar afleiðingar að setja Seðlabankann í þessa bóndabeygju.

Það eru 35 ár síðan ákvörðun var tekin um að hverfa frá pólitískum vaxtaákvörðunum. Spurning er hvort þetta er fyrsta skrefið til baka. Fari svo getur það búið til pólitískar flækjur þegar frá líður. Ríkisstjórnin er núna bæði ábyrg fyrir sjálfstæði Seðlabankans og loforðinu um vaxtalækkun. Þetta er áhættupólitík.  Einkanlega er þetta hættuspil fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Á að fresta pólitíska loforðinu um að meta menntun til launa?

Önnur pólitísk klípa kjarasamninganna veit að fyrirheitinu um að meta menntun til launa. Allir stjórnmálaflokkar, innan og utan ríksstjórnar, hafa talað fyrir því markmiði. Það nær jafnt til iðnmenntunar sem háskólamenntunar. Markmiðið getur haft afgerandi áhrif áhagvöxt.

Stjórnmálaflokkar hafa verið á einu máli um að Ísland hefur verið á rangri leið. Við höfum flutt menntafólk úr landi en tekið á móti erlendu vinnuafli til láglaunastarfa því að vöxturinn hefur verið þar.

Verulegur pólitískur ágreiningur er aftur á móti um þær efnahagslegu kerfisbreytingar sem nauðsynlegar eru til að snúa þessari þróun við. En nú bætist sú klípa við að kjarasamningarnir byggja á því að launamunur milli ófaglærðra og annarra minnki. Í því felst ekki hvatning til menntunar.  

Vegna þess hvernig kjarasamningar eru byggðir upp hefur alltaf verið auðvelt að fara í kringum slíkar ákvarðanir, sem vissulega eru ekki nýjar af nálinni. Verða þær leikfléttur endurteknar eins og áður eða ekki?

Ætlar ríkisstjórnin að segja við háskólamenn í opinberri þjónustu að þeir fái aðeins krónutöluhækkun láglaunafólks og engar leiðréttingar eftir flóknum krókaleiðum  launaflokkaröðunar og annarra aðgerða af því tagi? Mun Samfylkingin segja við BHM að hún hafi frestað öllum stuðningi við að meta menntun til launa?

Svarið við þessum spurningum mun ráða miklu um það hvort efnahagslegar forsendur samninganna halda. Það mun líka hafa áhrif á það hvort láglaunafólkið verður í raun betur sett þegar upp verður staðið frá öllum kjarasamningum. Og svarið mun ráða mestu um það hversu víðtæk og langvinn sú almenna pólitíska ánægja verður sem nú ríkir með samningana. 

Með öðrum orðum pólitíska klípan er sú að það gengur ekki alveg upp að lofa á annað borðið að hækka lægstu laun og minnka launabilið en lofa jafnframt á hitt borðið að meta menntun til launa.