„Í dag hefði pabbi orðið 76 ára. Hans er sárt saknað enda féll hann allt of snemma frá. Minning um hann er hins vegar ljóslifandi í hugum okkar og hjörtum.“
Þetta segir þingmaður Viðreisnar Þorsteinn Víglundsson en faðir hans, Víglundur Þorsteinsson lést þann 12. nóvember á síðasta ári. Víglundur var lengi umsvifamikill í íslensku atvinnulífi. Hann var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi frá 1974 til 1978. Víglundur var lengi í forystu ýmissa samtaka atvinnurekenda. Þá sat hann í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna í rúm 20 ár og í stjórn Eimskips frá 2013 til dánardags.
Þorsteinn sonur hans segir:
„Leyfi mér að láta hér fylgja lítið brot úr minningargrein okkar bræðra um pabba.
„Ókunnugum gat hann stundum virst afar fastur fyrir. Vissulega var hann ákveðinn maður og lét fátt standa í vegi sér þegar kúrsinn var tekinn. En þeir sem þekktu hann vel vita að þar fór maður með stórt hjarta sem mátti ekkert aumt sjá.
Hann var þeim sem til hans leituðu ráðagóður og hjálpfús. Örlátur og með ríka réttlætiskennd. Einstaklega stórhuga, framsýnn og fylginn sér. Hann bjó yfir aðdáunarverðri áræðni og drifkrafti. Yfirsýn hans og stálminni kom sér líka oft til góða. Það mátti fletta upp í pabba eins og alfræðiorðabók um ótrúlegustu málefni.“