Þórólfur: „Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði að mögulega hefði bróður mínum verið ráðinn bani“

Þórólfur Hilbert Jóhannesson, bróðir Kristins Hauks Jóhannessonar sem lést aðeins 19 ára gamall árið 1973 í Óshlíð á Vestfjörðum, leitar að réttlæti fyrir bróður sinn sem hann kynntist aldrei í lifandi lífi.

Rætt var við Þórólf í helgarblaði Fréttablaðsins.

Síðustu misseri hefur Kristinn átt hug hans og hjarta. Þórólfur hefur tekið að sér það hlutverk að vera umboðsmaður látins bróður síns. Í þeirri von að finna púsl sem leysi ráðgátu.

Þegar Þórólfur fregnaði af hörmulega skammri tilvist bróður síns fékk hann strax mikinn áhuga á sögu hans. En þegar hann fór að spyrjast fyrir upplifði hann að mestu lok-lok-og-læs eins og hann orðar það. Það kunni að skýrast af örlögum Kristins, en hann segir að sér líði alltaf eins og sitthvað sé ósagt og óupplýst.

Í janúar í fyrra urðu hvörf í lífi Þórólfs þegar Vestfirðingur nokkur tjáði honum í símtali að hann væri viss um að Kristinn, eða Kiddi eins og hann var kallaður, hefði verið drepinn.

„Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði að mögulega hefði bróður mínum verið ráðinn bani.“

Þórólfur byrjaði að hringja út og reyndi að hafa uppi á fólki í gegnum samfélagsmiðla.

„Ég átti eina mynd af honum og birti hana. Upp úr því fór boltinn að rúlla.

Margt er enn á huldu um nóttina örlagaríku þegar Kiddi lést. Það sem helst kveikti grunsemdir Þórólfs er frásögn leigubílstjórans sem ók Kristni í hans hinstu för. Þar eru nokkuð mörg atriði, að sögn Þórólfs, sem stand­ast enga skoðun.

Umfjöllun Fréttablaðsins má lesa í heild sinni hér.