Þolandi sem heldur því fram að tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson sé meintur gerandi fer hörðum orðum um þjóðþekktu einstaklingana sem komu honum til varnar. Eins og greint var frá í gær kom Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, Jón Óskar myndlistarmaður, sjónvarpskonan Sirrý og blaðamaðurinn Jakob Bjarnar, Auðunni til varnar eftir að útvarpsstöðvar sögðu að þær hefðu kippt Auðunni úr spilun eftir að hann viðurkenndi að hafa farið yfir mörk konu.
Hvað næst? Ætla Bónus og Dominos að loka á hann líka ... eruð þið að reyna að drepa manninn?“ spyr Jón Óskar.
„Algjörlega sammála þér. Að taka tónlist hans úr spilun í þessu samhengi er bara galið að mínu mati - að maður tali nú ekki um hvers konar signal þetta er um það sem koma skal! Maður er eiginlega bara miður sín allan hringinn...,“ segir Svanhildur.
Sjá einnig: Forstjóri Hörpu kemur Auði til varnar: „Maður er eiginlega bara miður sín allan hringinn“
Þolandi að nafni Ýr, sem segir að hún sé ein tíu kvenna sem hafi borið Auðunn þungum sökum og ein af þremur sem hafi stigið fram fer hörðum orðum um þau. „FOKK OFF með þessa umræðu í alvöru talað,“ segir Ýr. „Ég hef fengið að heyra öll brotin í fyrstu persónu og finnst alveg sjúkt að lesa þennan þráð hér.“
Hún heldur áfram: „Flestar hafa ekki stigið fram opinberlega, enda skulda þær engum það. Ég vona innilega að ekkert þeirra rekist á þennan þráð enda er landið lítið og líkurnar á því að einhver af þessum 10 stúlkum tengist ykkur vina/fjölskylduböndum gríðarlega miklar. Vinsamlegast sýnið nærgætni þar sem þetta gæti raunverulega verið frænka þín, dottir, barnabarn.“
Ýr segir að þolendur skuldi engum að fara í gegnum kerfið. „Við skuldum engum það að ganga í gegn um dómstóla. Við skuldum engum það að fjalla um málið í fjölmiðlum. Við ætluðum ekki að nafngreina, hann gerði það sjálfur. Meira. Var. Það. Ekki.“
Hörður Ágústsson, kenndur við Macland, fer einnig hörðum orðum um þráð þjóðþekkta fólksins. „Ef þetta er fólkið sem "vill stýra umræðunni" þá erum við gjörsamlega fucked,“ segir Hörður. „Þarna eru forstjórar, frægir einstaklingar, bara allskonar málsmetandi fólk að pissa með munninum.“
Hrafn Jónsson tekur undir með honum: „Allir eldri en 45 ára eru með hræðilegar skoðanir. Það er bara akademísk staðreynd. Það er stutt í þetta.“