Prófessor segir stjórnvöld markvisst eyðileggja menntakerfið

Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar HÍ og prófessor í þýðingafræði, gagnrýnir stjórnun menntamála á Íslandi í aðsendri grein á Vísir.is. Hann segir styttingu framhaldsskólans hafa verið ein verstu pólitísku mistök síðustu ára.

„Ein verstu pólitísku mistök síðari ára var ákvörðunin um að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Margir reyndir skólamenn og -konur mótmæltu þessu, en þetta átti að vera atvinnulífinu til góða, nemendur kæmu ári fyrr út á vinnumarkaðinn. Það hefur ekki gengið eftir, brottfall er mikið og sum taka sér frí eftir þriggja ára puð í framhaldsskóla. Hin koma verr undirbúin og óþroskaðri í háskóla. Það ýtir svo undir brottfall í háskólum. Núna eru heilu kynslóðirnar af drengjum ekki í háskólum. Það var því verr af stað farið en heima setið.“

Gauti hefur ekki síður áhyggjur af þróun háskólanáms. Hann telur menntamálaráðherra vera á villigötum með fyrirætlunum um aukna áherslu á þjónustuhlutverk háskóla við atvinnulífið. Lítið sé hirt um akademískt frelsi í þeim fyrirætlunum:

„Málefni háskólanna hafa mikið verið í umræðu undanfarið, vanfjármögnun þeirra og fleiri mál. Ráðherra háskólamála hyggst bæta við fjármagni til þeirra og er það gott og blessað. En ráðherrann hyggst líka ákveða hvað háskólarnir kenna og telur sig vita best hvað fólk eigi að læra, svokallaðar „STEM“ greinar, sem áður voru kallaðar raungreinar, en orðið, eins og hugmyndafræðin, er innflutningur frá Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum, eins traustvekjandi og það nú er. Hið akademíska frelsi er þar með að engu haft og verður þar gríðarlega afturför að ræða. En hver veit hvaða fög er best að leggja stund á þegar gervigreindarvæðing samfélagsins fer fram? Námsgreinar sem tölvur geta leyst af, eins og til að mynda ýmsar raungreinar, eða námsgreinar þar sem gagnrýnin hugsun er kennd?“

Segir Gauti að valdhafar vilji ná tökum á akademíunni og framtíðarsýnin er svört:

„Allt ber þetta að sama brunni, hið pólitíska vald vill ná tökum á frjálsri hugsun akademíunnar með því að gera hana að „útungunarstöð fyrir atvinnulífið“. Með sama áframhaldi brotnar þetta fjöregg þjóðarinnar endanlega.“