Kaup Hafdísar Jónsdóttur, betur þekkt sem Dísa í World Class, á 150 milljón króna penthouse-íbúð í Skuggahverfinu vöktu mikla athygli í vikunni. Sérstaklega í ljósi þess að eigendur World Class, Hafdís og eiginmaður hennar Björn Leifsson, hafa borið sig illa í fjölmiðlum yfir tekjutapi á meðan kórónuveirufaraldurinn hefur riðið yfir.
Íbúðin sem Hafdís fjárfesti í er á áttundu og efstu hæð í fjölbýlishúsi við Vatnsstíg 14. Þess má geta að dóttir Hafdísar og Björns Leifssonar, Birgitta Líf, seldi á dögunum eign sína í Vatnsstíg 20-22 og hefur skráð lögheimili sitt á Vatnsstíg 14. Samkvæmt vef Mannlífs býr Birgitta Líf í íbúðinni sem móðir hennar fjárfesti í.
Íbúðin glæsilega er 182,4 fermetrar sem þýðir að fermetraverð eignarinnar er 814 þúsund krónur. Þó um hátt verð sé að ræða þekkist allt að tvöfalt hærra fermetraverð í hverfinu.
Það eru nefnilega mun stærri og íburðarmeiri eignir í hinu umdeilda Skuggahverfi, leikvelli hinna ríku og frægu.
Vatnsstígur 15:
Eigendur penthouse-íbúðarinnar á níundu hæð eru hjónin Jóhann Jónsson, skurðlæknir, og Sigurveig Víðisdóttir, hjúkrunarfræðingur. Hjónin voru búsett í Bandaríkjunum um árabil þar sem Jóhann vann það sér til frægðar að taka þátt í fyrstu skurðaðgerðinni þar sem að nýtt hjarta og briskirtill voru grædd í sama sjúkling í mars 1989.
Íbúð hjónanna er 217,5 fermetrar og miðað við svipað fermetraverð væri söluverð íbúðarinnar tæpar 180 milljónir króna.
Vatnsstígur 21:
Á fjórtándu hæð við Vatnsstíg 21 er tveggja hæða penthouse-íbúð, 295,2 fermetrar að stærð, sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, sem gjarnan er kenndur við Samherja. Feril Þorsteins er óþarfi að rekja en hann nær allt frá Eyjafirði til stranda Namibíu.
Þorsteinn er búsettur á Akureyri og nýtir hann því íbúðina í Skuggahverfinu aðeins þegar hann á erindi í höfuðborgina. Þorsteinn fjárfesti í íbúðinni árið 2012 en miðað við títtnefnt fermetraverð væri söluverð hennar mögulega um 250 milljónir króna.

Þorsteinn Már Baldvinsson
Vatnsstígur 16-18:
Eigandi penthouse-íbúðar við Vatnsstíg 16-18 er Björg Bergsveinsdóttir. Björg er eiginkona Eggerts Dagbjartssonar fjárfestis en þau hjónin hafa um langt skeið verið búsett í Bandaríkjunum. Eggert hefur starfað sem stjórnandi hjá bandaríska fjárfestingafélaginu Equity resource investments (ERI) sem er í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum en félagið sérhæfir sig í allskonar fasteignafjárfestingum ytra. Eggert hefur einnig komið að verkefnum hér heima en þar ber hæst lúxushótel við hlið Hörpu. Eggert er einnig þekktur fyrir að hafa hætt í námi sínu í Harvard til þess að hella sér út í viðskipti.
Íbúð hjónanna er 312,6 fermetrar að stærð og því yrði mögulegt söluverð hennar um 255 milljónir króna.

Eggert Dagbjartsson
Vatnsstígur 20-22
Stærsta penthouse-íbúðin í Skuggahverfinu er 314,4 fermetra íbúð á 16. Hæð í húsinu við Vatnsstíg 20-22. Íbúðin var áður í eigu auðkýfingsins Róberts Wessmann en hann notaði íbúðina síðan sem skiptimynt upp í íbúðafléttusem Fréttablaðið greindi frá í byrjun árs 2020.
Róbert keypti þá af byggingarfélaginu Skugga, í gegnum félag sitt Hrjáf ehf., 31 íbúð í nýbyggingum við Lágaleiti, Efstaleiti og Jaðarleiti. Kaupverð eignanna var 1,5 milljarður króna en hluti kaupverðsins var greiddur með penthouse-íbúðinni glæsilegu.
Í fléttunni var íbúðin metin á 460 milljónir króna sem gerir fermetraverð upp á tæplega 1,5 milljónir króna. Það er næstum því tvöfalt fermetraverð en Hafdís greiddi fyrir sína íbúð á dögunum.
Félagið Skuggi 4 ehf., skráður eigandi eignarinnar, er í eigu þremenninganna Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar, Hilmars Ágústssonar og Péturs Stefánssonar.