Þeistareykir komnir á fullan damp

Önnur vélasamstæða aflstöðvarinnar að Þeistareykjum hefur nú verið tekin í notkun og er því 17. aflstöð Landsvirkjunar komin í fullan rekstur. Um er að ræða fyrstu jarðvarmavirkjunina sem Landsvirkjun reisir frá grunni, en hún samanstendur af tveimur 45 MW vélasamstæðum og er því alls 90 MW.

Þeistareykjastöð var gangsett við hátíðlega athöfn í nóvembermánuði síðastliðnum, segir í tilkynningu frá Labdsvirkjun, þegar fyrsta vélasamstæðan var formlega ræst og tengd við flutningskerfi Landsnets. Framkvæmdir við annan áfanga hafa gengið vel, en önnur vélasamstæðan kom til Þeistareykja fyrir ári síðan, í apríl 2017, og stóð uppsetning hennar yfir fram í lok janúarmánaðar. Frá miðjum febrúar hefur vélasamstæðan verið í tilraunarekstri þar sem öll virkni hennar hefur verið sannreynd, allt þar til nú að Landsvirkjun hefur tekið formlega við rekstri hennar. Framkvæmdin hefur fylgt áætlun frá fyrsta degi en það má einkum rekja til góðrar og árangursríkrar samvinnu allra þeirra sem að henni hafa komið.

Framkvæmdum við Þeistareykjavirkjun fer brátt að ljúka. Gert er ráð fyrir að öllum framkvæmdum, að undanskildum yfirborðsfrágangi, ljúki í byrjun sumars. Vinna við yfirborðsfrágang er í útboðsferli, þar sem tilboð verða opnuð í lok apríl og stefnt á að vinna geti hafist í byrjun júní. Áætlað er að verkinu ljúki í haust og með því lýkur framkvæmdum á Þeistareykjum í bili.

Frumkvæði að nýtingu náttúruauðlindarinnar á Þeistareykjum kom frá heimamönnum, en sveitarfélög og íbúar stofnuðu Þeistareyki ehf. árið 1999. Landsvirkjun kom fyrst að verkefninu árið 2005 en hefur frá árinu 2011 haft forgöngu um undirbúning og framkvæmd þess.

Rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum teygja sig áratugi aftur í tímann. Við mat á umhverfisáhrifum var miðað við allt að 200 MW virkjun á svæðinu, en núverandi verkefni hefur snúist um byggingu 90 MW virkjunar í tveimur áföngum. Framkvæmdir hafa nú staðið í um 3 ár og frá upphafi hefur meginmarkmiðið verið að reisa hagkvæma og áreiðanlega stöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru.

Strax í upphafi voru samskipti við hagsmunaaðila sett í forgang og þá með áherslu á umhverfismál. Skipulagning framkvæmda miðaði að því að lágmarka umhverfisrask eins og kostur var.

Uppgræðsluverkefni var gangsett samhliða undirbúningsframkvæmdum og miðaði að endurheimt beitarlands í stað lands sem fór undir framkvæmdir. Það verkefni er nú á lokastigi. Öll uppgræðsla hefur verið unnin í samvinnu við Landgræðsluna og fulltrúa sveitarfélaga. Gróðurþekja sem fjarlægð hefur verið vegna framkvæmda hefur verið nýtt beint til uppgræðslu og hefur það gefið mjög góða raun og er, ásamt endurheimt á beitarlandi, okkar stolt í umhverfismálum á Þeistareykjum.

Umhverfisvöktun hófst samhliða undirbúningsframkvæmdum, en hún felst í kortlagningu á grunnástandi náttúrunnar við upphaf framkvæmda, sem síðan notast við mat á mögulegum breytingum á byggingartíma og áfram í gegnum rekstur stöðvarinnar, segir í tilkynninggu frá Landsvirkjun.