Þegar þingmenn virða ekki eigin orð

Allir þingmenn VG, fyrir utan tvo ráðherra og forseta Alþingis, hafa flutt tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæði um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Að öllu jöfnu ætti þetta að vera stórfrétt. En fjölmiðlar sýnast líta á hana sem eins dálks fréttaefni.

En hvers vegna ætti þetta að vera stórmál en er það ekki? Svarið liggur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þar segir að lögð sé áhersla á að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum og þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var á Alþingi verði höfð að leiðarljósi. Í þjóðaröryggisstefnunni sem stjórnarsáttmálinn vísar til segir að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin séu ásamt fleiri þáttum forsenda sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar var stjórnarsáttmálinn með tilvísun í þjóðaröryggisstefnuna samþykktur með tveimur þriðju hluta atkvæða á flokksráðsfundi VG. Formaður VG tók að sér að framkvæma þjóðaröryggisstefnuna og standa vörð um NATO-aðildina og varnarsamninginn og hefur gert það óðfinnanlega bæði heima fyrir og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Engin ríkisstjórn, hvorki hér né annars staðar, getur lifað án samstöðu um stefnuna í öryggismálum. Af sjálfu leiðir að það ætti að vera meiri háttar viðburður þegar allir óbreyttir þingmenn forystuflokks ríkisstjórnarinnar leggja til að þjóðin felli burt þetta grundvallaratriði í sáttmála ríkisstjórnar sem þeir sjálfir lofuðu, að tveimur undanteknum, að standa með til loka kjörtímabilsins.

Efnislega eru þingmenn VG að ganga á bak orða sinna. Um leið og þeir hlaupa frá stjórnarsáttmálanum felst einnig í tillögu þeirra vantraustsyfirlýsing á formann eigin flokks og forsætisráðherra landsins sem axlað hefur ábyrgð á málaflokknum og tekur ekki þátt í að rjúfa stjórnarsamstarfið með þessum hætti.

Í öllum öðrum löndum Atlantshafsbandalagsins hefði tillaga eins og þessi, flutt af öllum óbreyttum þingmönnum forystuflokks ríkisstjórnar, vikið til hliðar dramatískum fréttum af gjaldþroti flugfélags og víðtækum verkföllum. En ástæðan fyrir því að engir taka mark á slíkum tillöguflutningi hér er sú að flutningsmennirnir gera það ekki sjálfir.

Enginn flutningsmanna lítur svo á að hann sé að ganga á bak orða sinna. Engum þeirra hefur dottið í hug að hreyfa við stjórnarsamstarfinu þó að það sé reist á þeirri stefnu að sjálfstæði og fullveldi landsins sé meðal annars tryggt með NATO-aðild og varnarsamningi við Bandaríkin. Þetta kemur fram í því að enginn þeirra mun fara fram á að tillagan verði borin undir atkvæði því að þeir vita að það myndi skekja stjórnarsamstarfið.

Með öðrum orðum: Þessir þingmenn VG taka ekki einu sinni mark á sjálfum sér. Þeir bera enga virðingu fyrir eigin orðum og enga virðingu fyrir eigin tillöguflutningi. Þeir líta á tillöguna sem markleysu.

Þingmenn VG róa vissulega ekki einir á báti í þessu efni. En spurningin er: Hvernig eiga kjósendur að bera virðingu fyrir þingmönnum sem geta ekki einu sinni borið virðingu fyrir eigin orðum og tillögum á Alþingi?